139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu og lýsingu á afstöðu Framsóknarflokksins.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um er afstaðan til sjávarútvegsins. Nú hafa komið fram tillögur á Íslandi um breytingu á sjávarútvegsstefnunni. Á sama tíma heyrum við að Evrópusambandið ætlar að taka upp íslensku stefnuna að einhverju leyti, þ.e. þá stefnu sem var og er í gildi enn þá en menn eru að hverfa frá hérna. Verður það ekki dálítið ankannalegt þegar við erum búin að eyðileggja arðsemi íslensks sjávarútvegs með því að stöðva framsal og annað slíkt að horfa upp á að stefnan lifi áfram hjá Evrópusambandinu með væntanlega framsali og öllum þeim kostum sem íslenska kerfið hefur og þeirri arðsemi sem það gefur á sama tíma og við erum að eyðileggja arðsemi kerfisins með þessum nýju hugmyndum hæstv. sjávarútvegsráðherra?