139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[23:43]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Spurningunni um Evrópusambandið er auðsvarað. Nei, ég fór ekki til kjósenda og sagði: Við ætlum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar voru ýmsir innan Vinstri grænna sem frá upphafi lögðu áherslu á að þjóðin ætti að fá að kjósa um þetta mál svo að því sé til haga haldið.

Eins og hv. þingmaður veit jafn vel og ég, hafandi verið stjórnarliði til þó nokkurs tíma, þá talaði hann mikið um ríkisbáknið og hvernig það mætti ekki þenjast út, en undir stjórn flokks hans þandist það út meira en nokkru sinni. Við höfum ekki yfirráð yfir öllum hlutum, við vitum það. Afstaða mín í Evrópusambandsmálinu hefur alltaf legið fyrir og liggur skýr fyrir. Alþingi samþykkti hins vegar að fara þessa leið. (Gripið fram í.) Fyrir liggur þá þingvilji (Forseti hringir.) til að gera það.

Varðandi Líbíu vil ég enn og aftur segja við hv. þingmann: Það er ekki við allt ráðið. Við vinstri græn fordæmum harðlega þessar loftárásir og það stendur. (Forseti hringir.)