139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

breytingar á stjórn fiskveiða.

[14:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú er komið í ljós eftir að ríkisstjórnin hefur kynnt meginatriði þeirra frumvarpa sem til stendur að leggja fram um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu að allar helstu breytingarnar sem mælt er fyrir leiða til meira óhagræðis fyrir greinina. Þetta mun án vafa valda því að eigna- og rekstrarvirði fyrirtækja í greininni verður minna.

Mig langar til að bera það undir hæstv. fjármálaráðherra hvort við vinnslu þessa máls hafi verið farið ofan í saumana á því hversu mikil þessi neikvæðu áhrif yrðu á greinina og einstök fyrirtæki. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli sökum þess í hve miklum viðskiptum sjávarútvegsfyrirtækin í landinu eru við bankana sem hér starfa. Það er til dæmis áætlað að heildarskuldir sjávarútvegsins við fjármálastofnanir í landinu séu í kringum 270 milljarðar. Ég hef heyrt þeirri tölu fleygt, ég hef hana svo sem ekki staðfesta, að skuldir sjávarútvegsfyrirtækjanna við Landsbankann sem er að stærstum hluta til í eigu ríkisins séu í kringum 160 milljarðar. Hvor talan sem er rétt er einsýnt að 5–10% áhrif í þessu efni fara að jafnast á við tölur sem hægt væri að bera saman við þær sem við ræddum í tengslum við Icesave-málið. Það eru sem sagt tugir milljarða undir.

Í jafnstóru máli og hér er rætt um hlýtur ríkisstjórnin að hafa lagt í einhverja lágmarksvinnu við að meta þessi áhrif. Þess vegna óska ég eftir því að hæstv. ráðherra geri grein fyrir þeirri vinnu og niðurstöðum hennar hér í dag.