139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[18:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi spyrja hv. framsögumann nefndarálitsins, hv. þm. Magnús Orra Schram, hvort nefndin hafi haft í huga í störfum sínum að sú lagabreyting sem hér er lögð til er almenn og nær til allra sviða opinberra innkaupa á vöru og þjónustu, ekki bara lyfja og heilbrigðisvara eins og greinilega hafa verið mjög í forgrunni í starfi nefndarinnar og raunar snýst greinargerð með frumvarpinu fyrst og fremst um lyfjamarkaðinn. Ég velti fyrir mér hvort nefndin hafi haft í huga að hér er um að ræða almenna breytingu sem nær til allra tegunda opinberra innkaupa hvort sem um er að ræða vöru eða þjónustu, sama á hvaða sviði.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort nefndinni hafi verið kunnugt um eða sé kunnugt um sambærileg lagaákvæði í löndunum í kringum okkur. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að svo sé, ég tek fram að ég hef aðeins lesið frumvarpið sem slíkt, nefndarálit og einhverjar greinargerðir. Ég á ekki sæti í viðskiptanefnd, ég hef því ekki fylgst nákvæmlega með öllu sem fram hefur komið þar. En eru einhver dæmi um sambærileg ákvæði sem höfð hafa verið til fyrirmyndar við mótun þessarar tillögu?

Í þriðja lagi vil ég spyrja hv. þm. Magnús Orra Schram — af því að í máli hans kemur fram og í nefndarálitinu líka að gert sé ráð fyrir að heimildarákvæði þessu verði bara beitt í undantekningartilfellum — hvort hann telji að í ákvæðinu eins og það liggur fyrir sé að finna slík skilyrði, þ.e. að hér sé aðeins um undantekningarákvæði að ræða en ekki ákvæði sem megi beita í fleiri tilvikum.