139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða eitt mál sem er að verða nokkuð algengt, mál sem snýr að ísbjörnum. Eins og við vitum hafa nokkrir ísbirnir komið til Íslands á síðustu missirum og það er ekkert gamanmál. Ætli þeir séu ekki hættulegustu landdýrin? Að minnsta kosti með þeim allra hættulegustu, og hafa orðið ýmsum að bana. (Utanrrh.: Einum manni síðustu þúsund árin á Íslandi.)

Hér kallar hæstv. utanríkisráðherra að ísbjörn hafi bara orðið einum manni að bana á síðustu þúsund árum. Og hvað segir það okkur, virðulegi forseti? Það segir okkur að það er afskaplega mikið skilningsleysi á alvöru málsins hjá hæstv. utanríkisráðherra svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Ef þeir væru hér upp á hvern dag, í hverri götu og gerðu engum manni mein væri það kannski í lagi en þeir hafa komið hingað endrum og eins. Þegar sá fyrsti kom urðu um það mjög harðar deilur og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem þá var hæstv. umhverfisráðherra, varð fyrir miklu aðkasti og árásum, mjög ómaklega. Hæstv. umhverfisráðherra brást hárrétt við en fékk mjög mikla gagnrýni. Sá þingmaður sem gekk hvað harðast fram í gagnrýninni var hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sem sagði meðal annars af því tilefni að henni þætti miður að við hefðum ekki meiri þroska en svo að grípa bara í gikkinn þegar við sæjum ísbirni.

Nú kom hingað einn um daginn og hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir brást hárrétt við. Ber að þakka fyrir það. Ég vil af þessu gefna tilefni spyrja hv. þm. (Forseti hringir.) Álfheiði Ingadóttur hvort hún sé sátt við hæstv. umhverfisráðherra í þessu máli eða hvort hæstv. umhverfisráðherra hefði átt að sýna meiri þroska.