139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að lýsa mig í meginatriðum sammála því sem hæstv. utanríkisráðherra hefur sagt. Hann hefur dregið það fram að það er ágætt að fylgja eftir þeim reglum, sem eru góðra gjalda verðar og við höfum sett okkur hér í þinginu til eftirlits, en hann hefur meðal annars dregið fram að Alþingi Íslendinga á að ákveða að koma upp aðstöðu fyrir fulltrúa þingsins í Brussel. Við vitum af reynslu Norðmanna sem hafa her manns í Brussel til að reyna að hafa áhrif, reyna að auka skilning Evrópusambandsins á ákveðinni sérstöðu sem Norðmenn hafa í tilteknum málum, að við eigum að gera það sama. Það dugar ekki bara fyrir þingið að tala um að bíða eftir að tilskipanirnar komi til þingsins og þá að hafa eftirlit og einhverja fyrirvara. Við eigum að koma fyrr að málum.

Þetta allt hefur meðal annars verið sagt í ágætri skýrslu um Evrópumálin sem hefur verið nefnd hér og var skilað árið 2007. Þingið hefur hins vegar ekki gert nægilega mikið í því, m.a. út af þeim fjárveitingum sem þinginu eru skammtaðar hverju sinni. Ég hvet hæstv. forseta til að skoða líka nákvæmlega þessi mál, hvernig skerpa megi aðstöðu okkar Íslendinga þegar kemur að eftirfylgni og framfylgni EES-samningsins. Ég lýsi mig sammála þeirri nálgun sem hæstv. ráðherra setti hér fram.

Ég var líka nýverið með fjórum öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í Strassborg þar sem við tókum meðal annars hús á evrópskum hægri mönnum. Auðvitað gilti ekki bara það eitt að tala um aðildarumsóknina, þar fórum við sérstaklega yfir hagsmuni okkar Íslendinga í Icesave-málinu þar sem við fengum fólk til að skilja hvað við áttum við með því. Við töluðum um landbúnaðarmálin og um sjávarútvegsmálin, það eru þau atriði sem skipta okkur máli og var hárrétt af hæstv. ráðherra að draga þau fram.

Varðandi Evrópusambandsaðildarumsóknina sem slíka, sem er annað mál en EES-samningurinn, hef ég reyndar meiri áhyggjur af því að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki pólitískt bakland til að fylgja þeirri (Forseti hringir.) umsókn eftir.