139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beinir til mín spurningu í sambandi við frumvarp sem ekki hefur verið mælt fyrir eða rætt. Eigi að síður held ég að mikilvægt sé að menn andi nú aðeins með nefinu og átti sig á því að það er kannski ekki alveg samhengi á milli þess hvort það er þessi auðlindagrein eða einhver önnur, heldur er aðalatriðið það að menn kippi ekki fótunum undan umræddri atvinnugrein.

Mig langar aðeins að svara því sem hv. þingmaður kom inn á um strandveiðarnar. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan var ég mjög mótfallinn því á sínum tíma þegar dagakerfið var lagt niður. En við erum því miður að stefna í þá átt núna með því að hafa þetta opið, framleiða báta inn í það, fjölga bátunum. Þetta er sama ferli og við höfum gengið í gegnum og höfum ekkert lært af því, við þurfum ekki alltaf að vera að finna upp hjólið, vegna þess að þá gefur það líka skakka mynd. Ég varaði mjög við þessu þegar þetta var rætt hér, þ.e. að gefa þurfi skýr skilaboð um það hvernig menn mundu vilja sjá þetta kerfi þróast. Nú bætum við 50% við. Á næsta ári kemur krafa aftur um 50% og enn höldum við áfram að framleiða báta, þannig að á endanum munu allir tapa. Það er það sem við þurfum að passa að gerist ekki.