139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem hefur komið hér fram á það að hv. stjórnarliðar sjái sér ekki fært að taka þátt í umræðunni nema að takmörkuðu leyti. Hv. þm. Helgi Hjörvar kallaði eftir hinni einu og sönnu Jónsbók og bíður óþreyjufullur eftir því að hún komist á dagskrá. Það væri nú mjög handhægt fyrir stjórnarliða að beina því til forseta að taka það mál bara á dagskrá, taka það strax til umræðu, það væri bara hið besta mál. Þá geta stjórnarliðar flykkst í hús og farið að ræða málin.

Ég verð líka að segja, virðulegi forseti, að eins og margir hv. stjórnarþingmenn hafa tjáð sig um sjávarútvegsmál tel ég mjög mikilvægt fyrir þá að fylgjast með umræðunni. Ég held það væri bara upplýsandi og gefandi fyrir þá. Ég verð að viðurkenna að þegar ég hlustaði á ræðu hv. þm. Helga Hjörvars kom fram ný sýn sem vakti ákveðnar efasemdir hjá mér, hlutir sem ég þarf að hugsa betur út í. Það er því mikilvægt að við eigum eðlileg skoðanaskipti um málin, skoðum bæði kosti og galla.

Ég hvet hæstv. forseta til að setja Jónsbók strax á dagskrá þannig að stjórnarliðar geti flykkst í hús og tekið þátt í umræðunni. Það er mjög mikilvægt.