139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:43]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla og góða ræðu. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er mikið búið að ræða um þær tillögur Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum sem hafa komið hérna fram. Þær byggja að nokkru leyti á pottaaðferðinni. Hv. þm. Kristján L. Möller fór mjög vel yfir það hvernig tillögurnar rímuðu við frumvörp stjórnarflokkanna og auk þess fór hv. þm. Eygló Harðardóttir mjög vel yfir þetta. Það var eitt í útlistun hv. þm. Eyglóar Harðardóttur sem vakti athygli hjá mér, þetta með nýliðunina, þ.e. hvernig nýir menn og konur koma inn í strandveiðipottinn, kaupa sér síðan aflaheimildir í aflamarkskerfinu, stóra pottinum getum við kallað hann, en jafnframt sagði hún að framsal væri að nokkru leyti bannað. Mér leikur svolítið hugur á að vita af hverjum á að kaupa ef framsalið er bannað. Það var eitt atriði.

Svo langar mig að spyrja hv. þingmann hvað átt sé við með orðinu nýliði. Er maður sem selur kvótann sinn og fer inn í strandveiðikerfið nýliði? Eða maðurinn sem er búinn að selja kvótann sinn tvisvar eða þrisvar og fer alltaf aftur inn í (Forseti hringir.) gegnum opnu kerfin? Hvenær hætta (Forseti hringir.) menn að vera nýliðar?