139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:09]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Ég tel að auðlindagjaldið eigi að taka mið af afkomu greinarinnar og ég legg til að það verði viðmiðunarpunkturinn. Við eigum að sjálfsögðu að mynda auðlindasjóð fyrir allar auðlindirnar, jarðhita, vatnsföll og sjávarútveg og fleiri auðlindir sem við getum væntanlega nýtt.

Mig langar að bera upp spurningu við hv. þingmann þegar hann leiðir hugann að þessu gjaldi, veiðileyfagjaldi. Nú var nettóhagnaður fiskvinnslunnar og sjávarútvegsins árið 2009 45 milljarðar og menn voru að borga 3–4 milljarða í opinber gjöld af þeirri tölu. Viðkomandi er að borga 6,50 krónur af hverju kílói í veiðileyfagjald. Við erum að hækka þetta upp í 13 krónur. Menn eru að selja kílóið á 300 kr. eða í framsalinu eru menn að selja það frá sér. Er það trúverðugt þegar menn segja að við séum með þessari innleiðingu að rústa fjárhagsgrundvelli útgerðarinnar? Er það ekki aðeins ofmælt miðað við það að menn hafa komist af með þennan góða hagnað, miðað við það að við erum með takmarkað magn af veiðiheimildum og munum auka veiðina á næsta ári, (Forseti hringir.) og þeir sem hafa nýtingarsamningana eru að fá yfir 50% af þeirri hlutdeild, (Forseti hringir.) í aukningunni sem er fram undan?