139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:24]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef á undanförnum tveimur árum tekið masterspróf í stjórnmálafræði ásamt því að taka þátt í þingstörfum og ég er greinilega enn þá að læra. Ég lærði það a.m.k. að til að ná árangri þarf stundum að gera málamiðlun. Ég held að þetta frumvarp sýni það ágætlega að til að ná málinu hingað inn, eins og ég hef lagt áherslu á, og til að ná því til þingnefnda og til að geta hafið alvöruumræðu meðal þjóðarinnar um hvernig við viljum haga þessum málum þarf að koma málinu áfram. Ég hef líka lært það sem ágætur hv. þingmaður sýndi fram á að stundum eru kaup kaups.

Ég ætla hins vegar ekki taka hann á orðinu að svo komnu máli vegna þess að ég vil fá dýpri umræðu um málið. Við þurfum að koma til móts við ólík sjónarmið. Sumir þingmenn leggja mikla áherslu á að horft sé til byggðamála og strandveiðanna og við hljótum að reyna að skilja þeirra sjónarmið. En ég ítreka að ég held að leiðin að lausninni sé veiðigjaldið.