139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tjá mig um kvóta á andsvörum, framsal á andsvörum á þó vel við í þessari umræðu.

Ég tek undir þau orð sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins bar hér upp, það er vitanlega mjög mikilvægt að hæstv. ráðherrar, forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra, verði við þessa umræðu. Fáir hafa tjáð sig jafnmikið um sjávarútveginn og hæstv. forsætisráðherra. Ég held að það væri mjög hollt fyrir forsætisráðherra að sitja hér og hlusta á þá umræðu sem fer hér fram til að auðga og hleypa meira innihaldi í umræðu hennar um sjávarútveginn. Ég held að það sé mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra hlýði hér á þingmenn og hvet ég herra forseta til að beita sér fyrir því sem og að hæstv. fjármálaráðherra verði hér til að segja okkur frá áliti fjármálaráðuneytisins á þessu frumvarpi.