139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[15:08]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er komið að mestu hátíðarhelgi íslenskra sjómanna og íslenskrar sjómannastéttar þar sem sjómannadagurinn og sjómannahelgin eru að renna upp og flotinn að sigla í land. Menn eru komnir í hátíðarskap og þá er fyrirhugað að halda þingfundi áfram fram eftir kvöldi. Fjöldi þingmanna tekur þátt í þessum hátíðahöldum um allt land og mér finnst þingið sýna þessari stétt vanvirðingu með því að gera mönnum ekki kleift að komast til heimabyggða sinna til að taka þátt í þessum hátíðahöldum með sjómönnum. Ég hvet virðulegan forseta til að beita sér fyrir því að hér ljúki fundum á sómasamlegum tíma seinni partinn í dag þannig að menn geti farið að huga að því að koma sér heim á leið og fagna á þessari helgi með sjómönnum.