139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom áðan inn á skerðingu sem væri á fjórum botnfisktegundum miðað við þetta frumvarp. Mér finnst gott að geta komið hingað og bent hv. þingmanni á að verið er að tala um að skerða í upphafi þá aflaaukningu sem verður en 45% af aflaaukningunni munu renna til aflamarkshafa í botnfisktegundunum steinbíti, ýsu, ufsa og þorski. Eftir 20 ár, þegar meðaltali afla þeirra ára er náð, verður skert til helminga þannig að 50% af aflaaukningu fara til potta og 50% til aflamarkshafa, en það verður ekki fyrr en meðaltali 20 ára er náð hjá þeim aflamarkshöfum sem hafa þær heimildir í dag.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann útskýrir þær miklu skerðingar sem hafa verið á Vestfjörðum síðastliðin 20 ár hjá þeim sem hafa haft aðgengi að aflaheimildum. Gífurleg skerðing hefur verið á Vestfjörðum á aðgengi að aflaheimildum sem hægt er að fletta upp. Hvernig útskýrir hv. þingmaður þá skerðingu og hver ber ábyrgð á henni?