139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Nú fer að styttast í störfum þingsins, a.m.k. ef miðað er við þá starfsáætlun sem ég veit að hæstv. forseti er mjög einbeittur í að standist hér. (Gripið fram í.) Við hv. þingflokksformenn höfum átt marga fundi og mörg góð samtöl við hæstv. forseta sem ég veit að leggur mikið upp úr því að þingstörfum ljúki hér í sátt þannig að við getum staðið vörð um virðingu þingsins og lokið þingstörfum á réttum tíma og í sæmilegri sátt.

Þess vegna kemur mjög á óvart þegar maður heyrir, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, hvernig málum er háttað í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég þarf ekki að rekja þá óvirðingu framkvæmdarvaldsins við þingið að koma með þessi makalausu frumvörp hingað tveimur mánuðum eftir að fresturinn til þess rann út. Svo heyrir maður í hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur í útvarpsviðtali í morgun þar sem henni er greinilega slétt sama um það sem hæstv. forseti hefur þó lagt mikla áherslu á, starfsáætlunina.

Hv. þingmaður sagði: Ja, við höfum nú fimmtudag og föstudag, sem ég vek athygli á að er ekki á starfsáætlun og ekkert samkomulag um að nýta til þingfunda, og ef það gengur ekki förum við bara með þetta inn í sumarið. Hún tekur þar með undir hótanir hæstv. forsætisráðherra sem lætur aldrei tækifæri ónotað til að hóta þingi og þjóð með einhverjum hætti.

Ég spyr hæstv. forseta: Hver fer með dagskrárvaldið á þinginu? Er það hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir? Gerir ríkisstjórnin sér ekki grein fyrir því að þetta sjávarútvegsmál er dautt, nákvæmlega eins og þau gáfust upp í gær fyrir stóra málinu? Þau áttuðu sig á því góðu heilli að það mun ekki komast hér í gegn þannig að þau (Forseti hringir.) slúttuðu því fram yfir þinglok. Hvenær ætlar ríkisstjórnin að gera sér grein fyrir því að þetta litla mál er andvana fætt líka? Á ekkert að hlusta á umsagnaraðila í þessu máli?