139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var nú ekki bara þannig að hér yrði hrun heldur voru undirstöðuatvinnugreinarnar og allar grunnstoðirnar mjög sterkar eftir 18 ára stjórn Sjálfstæðisflokksins. Ég minni á að skattkerfið var mjög lipurt og fékk sérstaka einkunn hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir að vera einfalt og skilvirkt. Reyndar er búið að eyðileggja það í millitíðinni eða búið að gera tilraun til þess. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu greiddi ég atkvæði með höftunum vegna þess að menn sáu enga lausn á þeim tíma hvernig ætti að stöðva þá snjóhengju sem vofði yfir. (Gripið fram í: Ríkisstjórnin … hafi skapað lausnina, það er nú gott að vita.) Lausnin átti að standa miklu skemur. Ég kom þá þegar með lausnina sem Seðlabankinn er fyrst núna að koma með, tvöfalt gengi. Ég lagði það til í nóvember 2008 en þá sagði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, eða ég fékk merki um það, að hann leyfði ekki tvöfalt gengi. Núna virðist það vera hægt.