139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

ákvæði laga um opinberar eftirlitsreglur.

765. mál
[13:26]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sem ég nefndi í máli mínu áðan, að við erum að endurskoða lögin, gefi tilefni og færi á því að taka upp ýmisleg álitaefni sem fram hafa komið í umræðunni og lítum til þess hvernig þessi lög eru í nágrannalöndum okkar. Ég held að sé vel tilefni til þess. Ég held að það sé alveg ljóst ef við skoðum hugmyndafræðina í núgildandi lögum að það er eins og allt opinbert eftirlit sé af hinu illa og að þar sé frekar neikvæð nálgun varðandi eftirlitsreglurnar, eins og þær séu bara íþyngjandi, en það er líka ávinningur í eftirlitsreglunum. Nægir þar að nefna Vinnueftirlitið og Vinnuvernd o.s.frv. Þó að það sé kostnaður við það er það til hagsbóta fyrir borgarana.

Það má líka skoða þetta með alþjóðlegum samanburði. Á Norðurlöndunum, Þýskalandi og Bretlandi er mældur kostnaður af eftirlitinu fyrir atvinnulífið. Ég held að það sé ástæða til þess að skoða það hér líka. Bretar hafa að vísu gengið mjög langt í þessu og þar kveða lög á um að ekki megi leggja nýjar íþyngjandi reglur á fyrir atvinnulífið nema fella aðrar úr gildi á móti sem eru íþyngjandi. Ég held að mönnum þyki það ganga of langt, en meðalhóf í þessu efni er það sem á að gilda. Ég vona að við höfum öll tækifæri til að skoða það á næsta þingi þegar endurskoðað frumvarp um opinberar eftirlitsreglur kemur fram.