139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

hækkun skatta og gjalda.

832. mál
[16:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér er ljúft að svara þeirri spurningu hversu oft skattar og önnur gjöld hins opinbera hafa verið hækkuð frá því í byrjun apríl 2009 og í hverju hækkanirnar fólust. Það vill nefnilega svo vel til að þetta liggur alveg nákvæmlega fyrir í þingskjali hér á Alþingi. Í þessu hefti sem er minna heftið sem fylgir fjárlagafrumvarpinu, sem nú eru lög fyrir árið 2011, er farið alveg rækilega yfir þetta, í kaflanum 3.3.2, byrjar á bls. 32 í heftinu, þar sem tekjuöflunaraðgerðir á aðlögunartímabili efnahagsáætlunar, þ.e. fyrir árin 2009 til og með 2011, miðað við forsendur fjárlagafrumvarpsins, eru ítarlega raktar. Hér eru töflur yfir hækkanir á árunum 2009, 2010 og 2011, sem hv. þingmaður getur kynnt sér. Þar er farið yfir þetta lið fyrir lið, hækkun tekjuskatta, hækkun tryggingagjalds, krónutölugjöld og gjaldskrárhækkanir, hækkun neðra þreps virðisaukaskatts, upptaka auðlegðarskatts og hækkun erfðafjárskatts, upptaka nýrra umhverfis- og auðlindaskatta og annað; og svo tekjur sem útgreiðslur séreignasparnaðar hafa haft í för með sér.

Síðan er rækilega farið yfir hvern þátt fyrir sig í texta á bls. 35–39. Þannig að svörin við fyrirspurninni liggja algerlega fyrir í fylgihefti með fjárlagafrumvarpinu.

Að öðru leyti vil ég segja að þær tekjuöflunaraðgerðir sem hafa verið liður í aðhalds- og efnahagsaðgerðum, eða ríkisfjármálaaðgerðum, ríkisstjórnarinnar hafa verið hluti af stóru heildarsamhengi þar sem menn hafa tekist á við hallarekstur ríkissjóðs, annars vegar með tiltekinni tekjuöflun og hins vegar með umtalsverðum sparnaðaraðgerðum sem vega þyngra í heildina tekið en tekjuöflunaraðgerðirnar. Ætli láti ekki nærri að hlutföllin séu um 55% á útgjaldahlið og 45% á tekjuhlið. Þessar aðgerðir voru algerlega óumflýjanlegar til þess að ná tökum á hallarekstri ríkissjóðs. Þær hafa í öllum aðalatriðum gengið eftir. Þær gerðu það á árinu 2009 og áttu sinn þátt í því að hallinn varð ekki um 170 milljarðar heldur nær 140 milljarðar á því ári. Þær gerðu það fyllilega á árinu 2010 og reyndar aðeins rúmlega það. Enn sem komið er, samanber það sem gefið hefur verið út um fyrstu fjóra mánuði þessa árs og reyndar fyrstu fimm, sem ég hef aðeins séð glitta í tölur um, erum við algerlega á áætlun hvað þetta snertir, bæði hvað varðar tekjuöflunina og útgjöldin nokkru undir heimildum.

Allt tal um að þessar fjáröflunaraðgerðir, tekjuöflunaraðgerðir, hafi ekki skilað sér er einfaldlega ekki á rökum reist. Það sýnir útkoma fjárlaga 2009, aftur 2010 og það sýnir sú staðreynd að við erum algjörlega á áætlun hvað varðar ríkisfjármálin enn sem komið er á árinu 2011.

Ef tekjuöflunaraðgerðirnar, sem menn hafa mikið talað hér um, eru skoðaðar í hlutfalli af hagstærðum þjóðarbúsins, til dæmis sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, hafa þær fyrst og fremst þjónað þeim tilgangi hvað tekjuöflunarstigið snertir að halda sjó. Við erum í grófum dráttum á svipuðum slóðum varðandi hlutfall af skattlagningu, sem sagt tekjuöflun af vergri landsframleiðslu, og við vorum. Hefði ekki verið gripið til þessara ráðstafana hefði þetta hlutfall farið enn lækkandi. Það er alveg ljóst. Þannig að einhverjar aðgerðir af þessum toga voru nauðsynlegar ef ekki átti að fara enn verr í ríkisfjármálum.

Séu þessir hlutir settir í slíkt samhengi verður hið óskaplega tal um hina ægilegu skattaáþján innstæðulítið.

Hitt er alveg rétt að við höfum fært skattbyrðina til. Við höfum fært hana yfir á þá sem hærri hafa tekjur, meiri hafa eignir, og fjármagnseignir, og við höfum umbreytt íslenska skattkerfinu umtalsvert hvað varðar umhverfismál. Við höfum gert það mun grænna með því að gera til dæmis losun koltvísýrings andlag vörugjalda á bifreiðar, með því að innleiða kolefnisgjöld og fleira í þeim dúr. Í því höfðu Íslendingar dregist stórkostlega aftur úr öðrum þjóðum sem almennt hafa verið að þróa skattkerfi sín á undanförnu árabili í átt til þess að hlúa að umhverfisvænni, vistvænni þróun í samgöngum o.s.frv.

Sem sagt — ítarleg, sundurliðuð svör við fyrirspurninni er að finna á bls. 33–39 í litla heftinu sem fylgir fjárlagafrumvarpinu í vetur þannig að ástæðulaust er að telja það upp aftur.