139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

erlendir fangar.

838. mál
[16:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargott svar, þá sérstaklega fyrir að svara í raun meiru en var spurt beint um. Ráðherrar mættu taka sér þetta til fyrirmyndar því að eins og hæstv. ráðherra benti sjálfur á hefur það ákveðið skýringargildi að bera saman ólíkar dagsetningar með aðeins tveggja vikna millibili og sýnir að fjöldinn er talsverðum sveiflum háður. Engu að síður er gagnlegt að fá þessar upplýsingar og meðal annars þær upplýsingar sem hæstv. ráðherra vísaði til um að erlendum föngum hefði farið fjölgandi frá árinu 2001, árinu sem Íslendingar urðu aðilar að Schengen, og fram til ársins 2008. Þetta er innlegg í þá umræðu sem við þurfum að fara í um Schengen-samstarfið, hvort hægt sé að bæta það með einhverjum hætti eða hvort það hafi ekki staðið undir væntingum. Íslendingar voru ef ég man rétt eina eyþjóðin í Evrópu sem varð aðili að Schengen-samstarfinu á sínum tíma og Evrópusambandslönd eins og Bretland, Írland og Kýpur ákváðu að standa utan Schengen vegna þess að aðstæður þessara ríkja til að verja landamæri sín voru allt aðrar og betri en landa á meginlandinu.

Auðvitað viljum við nýta okkur til hins ýtrasta þá möguleika sem við höfum á því að verja landið gegn skipulagðri erlendri glæpastarfsemi, ekki síst fíkniefnasölu.

Einnig er mikilvægt að verja þá erlendu innflytjendur sem hingað hafa komið á undanförnum árum fyrir ágangi afbrotamanna úr heimalöndum þeirra. Því miður hefur það tíðkast, og meðal annars gerst á Íslandi, að afbrotamenn (Forseti hringir.) hafa níðst á löndum sínum í (Forseti hringir.) nýja búsetulandinu.