139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[14:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir hvert orð sem hv. þingmaður sagði. Mig langar til að vekja athygli á því að þetta viðskiptakerfi sem við erum hér að ræða gerir ráð fyrir því að flugstarfsemin falli undir kerfið frá 1. janúar 2012 og síðan málmbræðslur, fiskimjölsverksmiðjur og fleiri tegundir iðnaðar á árinu 2013. Íslenskur iðnaður mun því ekki fara inn í kerfið fyrr en eftir að Kyoto-tímabilinu lýkur, þ.e. árið 2013. Þannig hefur þetta viðskiptakerfi ekki beina tengingu við samninga eða skuldbindingar Íslands á vettvangi loftslagssamningsins og ákvarðanir um að leita ekki eftir því að framlengja íslenska ákvæðið hafa ekkert með upptöku ETS að gera í mínum huga. Kyoto-tímabilið og íslenska ákvæðið renna út í lok árs 2012 og eins og mál standa núna er afar ólíklegt að samningar náist yfir höfuð um framhald Kyoto-bókunarinnar og það ríkir mikil óvissa um það hvers konar framhald verður á lagalega bindandi skuldbindingum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á vettvangi loftslagssamningsins. Meðan það er ekki ljóst tek ég undir það sem hv. þingmaður sagði, það er mikilvægt að íslenskir flugrekendur sitji við sama borð og evrópskir að þessu leyti.