139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[21:14]
Horfa

Baldur Þórhallsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að koma inn á málflutning þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hér hafa verið í pontu. Þeir láta mjög stór orð falla og ýkja allan málflutning sem ekki er gott að láta berast út í samfélagið. Þeir tala um að loka eigi á öll tengsl kirkju og kristni við íslenskt samfélag. Það er enginn að tala um það og enginn hefur nokkurn tímann lagt það fram. Ég held að við eigum í rauninni miklu meira sameiginlegt í þessari umræðu en menn vilja vera láta og erum þeim sammála um það að mjög mikilvægt sé að menn hafi djúpstæða þekkingu á kristninni eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á áðan.

Mér finnst hins vegar fyrrverandi menntamálaráðherra og þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki hafa mjög mikla trú á kennurum landsins og því starfi sem þeir eiga að sinna í skólunum. Þeir sérhæfa sig sérstaklega í trúarbragðafræðslu hvernig eigi að fara yfir hin mismunandi trúarbrögð í skólastofum landsins og leggja sérstaklega, að sjálfsögðu, meiri áherslu á kristinn sið vegna þess að það er okkar menningargrunnur hér á landi.

Ég vil í rauninni ítreka það að kristinfræðsla og trúarbragðafræðsla á að vera í höndum fagmenntaðra kennara í landinu en ekki einstakra safnaða.