139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

verslun með áfengi og tóbak.

703. mál
[22:55]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1583, frá efnahags- og skattanefnd. Að álitinu standa auk mín Magnús Orri Schram, án fyrirvara, en aðrir nefndarmenn með ýmsa fyrirvara af ýmsu tilefni. Málið felur þó ekki í sér neinar verulegar efnisbreytingar hvað varðar lagaumgjörð um starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunarinnar. Lögin um hana eru frá 2002 og þær breytingar sem hér eru á ferðinni eru fyrst og fremst þrenns konar og verða ekki til þess að valda neinum stakkaskiptum á þeirri starfsemi.

Í fyrsta lagi er verið að skjóta lagastoð undir vöruvalsreglur ÁTVR í verslun með áfengi og færa versluninni heimildir til að hafna vörutegundum sem hún hefur rökstuddar ástæður til að vilja ekki taka til sölu í verslunum sínum.

Í öðru lagi er verið að taka tillit til þess í lögunum að rétt þykir að áfengisverslunin taki mið af stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuvarnamálum eins og hún er á hverjum tíma og kemur fram í samþykktum ríkisstjórnar og í lögum um áfengis- og tóbaksvarnamál. Önnur þeirra breytingartillagna sem nefndin leggur til varðar einmitt það að vísa til þeirra ágætu laga í þessum lögum. En jafnframt er gert ráð fyrir því að ÁTVR eigi að huga að þáttum eins og samfélagsábyrgð og öðru slíku í rekstri sínum, jafnframt því auðvitað að sinna þeirri arðbæru verslunarstarfsemi sem fyrirtækinu er falin með áfengi og tóbak fyrir hönd ríkissjóðs.

Þá er gert ráð fyrir að að leggja af sérstaka stjórn í fyrirtækinu og láta forstjóra þess heyra beint undir ráðherra en það hefur almennt verið þróunin í ríkisrekstrinum að fækka stjórnum, enda hefur ábyrgðarsvið þeirra oft og tíðum verið illa skilgreint og til þess fallið að lengja boðleiðir og gera ábyrgðarmörk óskýr í ríkisrekstrinum. Því er talið ákjósanlegra að ábyrgðin á rekstrinum sé skýrlega yfirmannsins í fyrirtækinu og hann svari síðan til ráðuneytisins um það.

Nefndin kallaði á sinn fund ýmsa gesti og fékk umsagnir frá ýmsum aðilum. Meðal annars fékk hún umsögn frá meiri hluta heilbrigðisnefndar sem vildi fela Áfengis- og tóbaksversluninni svipaðar heimildir til að hafna tilteknum tóbakstegundum eins og gert er í áfenginu. Það er hins vegar svo hvað varðar tóbakið að staða verslunarinnar er nokkuð önnur en í áfenginu vegna þess að Alþingi hefur með lögum falið stofnuninni að framleiða og selja tóbak. Hún er þar af leiðandi markaðsráðandi aðili í framleiðslu á neftóbaki. Þess vegna, m.a. út frá þeim sjónarmiðum að það gæfi henni aðra stöðu gagnvart öðrum aðilum á markaði hvað tóbakið varðar, varð ekki úr að gera tillögur hv. heilbrigðisnefndar að tillögu efnahags- og skattanefndar í málinu. En ég vænti þess að hún kunni að koma fram sem tillaga einstakra þingmanna en árétta að hún hefur enga umfjöllun fengið og ákaflega takmarkaða skoðun og kannski óvarlegt að setja inn slíkar heimildir án þess að það hljóti betri undirbúning en þar var gert ráð fyrir.