139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

verslun með áfengi og tóbak.

703. mál
[23:02]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst hvað varðar stjórnirnar þá hygg ég að hv. þingmaður þekki það úr störfum sínum sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands að slík þróun hefur almennt verið í ríkisrekstrinum að sérstakar stjórnir hafa verið á undanhaldi og það kæmi mér ekki á óvart að hv. þingmaður hefði sjálfur stuðlað að því á sínu málasviði á sínum tíma.

En um tilvísun til tóbaksvarnafrumvarpsins svokallaða og banns við áfengisauglýsingum er nú sá þingmaður sem hér stendur ekki ábyrgðarmaður þeirra mála. Ég verð að segja að athugasemdir um aukna forsjárhyggju lúta alfarið að þeim málum en ekki því máli sem hér er fyrir, því að hér er auðvitað fyrst og fremst verið að festa lagaheimildir fyrir þeim vöruvalsreglum sem Áfengis- og tóbaksverslunin hefur lengi starfað eftir. Þau sjónarmið sem þar eru fyrst og fremst uppi lúta ekki að því að hafa vit fyrir fullorðnu fólki. Þar hefur fyrst og fremst verið horft til þess að áfengar vörur sem eru framleiddar sérstaklega til markaðssetningar á börn og ungmenni, þeim sé hægt að hafna. Áfengur ís, áfengt sælgæti og önnur slík viðleitni til þess að selja ósjálfráða fólki áfengi í einhvers konar dulargervi, ég held að það sé eðlileg viðleitni hjá Áfengis- og tóbaksversluninni og feli ekki í sér neina óeðlilega forsjárhyggju. Það er nokkuð sem hún hefur gert fram að þessu. Við erum fyrst og fremst að festa í lögunum um hana að það sé henni heimilt og að hún sé ekki að gera það á grundvelli reglna sem hún setur sjálf án sérstaks stuðnings í lögum.