139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

skeldýrarækt.

201. mál
[11:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði um heildarlög um skeldýrarækt sem marka á vissan hátt tímamót. Þetta er í fyrsta skipti sem slík löggjöf er sett og eftir henni hefur mjög verið kallað af hálfu þeirra sem starfa í þessari atvinnugrein og er örugglega ein forsenda fyrir mikilvægri uppbyggingu sem gæti átt sér stað í þessari atvinnugrein. Vandinn er hins vegar sá að eins og frumvarpið lítur út og þrátt fyrir breytingar meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar eru gríðarlega mörg flækjustig í þessu máli og það þarf örugglega að skoða það þegar fram í sækir. Við sjálfstæðismenn viljum hins vegar ekki leggjast gegn því að frumvarpið nái fram að ganga enda er eftir því kallað, sérstaklega úr atvinnugreininni. Munum við styðja frumvarpið að öðru leyti en því að í 16. gr. þess er afar slæmt ákvæði sem hefur í för með sér að það mun takmarka fjármagn til skeldýraræktar og koma í veg fyrir að eðlilegur arður renni til frumherja við framsal leyfa til nýrra rekstraraðila. Við munum því greiða atkvæði gegn 16. gr. og hvetjum þingheim til að gera það og fella þessa grein. Að öðru leyti styðjum við málið.