139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[11:13]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það var skrifað inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að taka upp hina svokölluðu austurrísku leið sem felur í sér að ofbeldismaður er fjarlægður af heimili sínu til að vernda aðra heimilismenn. Fórnarlömb ofbeldis þurfa því ekki lengur að flýja heimili sín, en það er nöturlegur veruleiki sem sumir, því miður, hafa þurft að búa við. Þetta er mikið framfaraskref og mikil réttarbót fyrir brotaþola sem í þessu er fólgin og jákvæður áfangi. Ég þakka þann þverpólitíska stuðning sem verið hefur við þetta mál á þinginu.