139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

brottfall laga um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

768. mál
[17:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er óþarfi að rekja sögu Icesave-málsins hér enda hef ég bara 54 sekúndur. [Hlátrasköll í þingsal.] En það er ástæða til að fagna sérstaklega þeirri samhljóða niðurstöðu sem stefnir í hér og þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að vekja máls á því að þessi gömlu Icesave-lög væru enn til staðar og er auðvitað engin ástæða til að láta þau liggja áfram í lagasafninu. En þetta er líka táknrænt á vissan hátt, það er verið að hreinsa þessar leifar út af borðinu og kemur á góðum tíma líka. Við höfum séð það að undanförnu að engin af þeim hrakfaraspám sem settar voru fram vegna þessa máls hefur gengið eftir, nú síðast tókst ríkinu nokkuð auðveldlega að selja skuldabréf fyrir 1 milljarð dollara og var eftirspurnin víst tvöfalt meiri en stóð til boða. Það er því mikið fagnaðarefni að menn skuli loksins vera lausir við þessi Icesave-lög.