139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[11:35]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri að það er ríkur samhljómur í málflutningi hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og mínum og þeim áherslum sem ég hef viljað leggja í þessu máli, sérstaklega varðandi svæðaskiptinguna í strandveiðunum sem ég hef oft gert að umtalsefni áður. Ég velti því fyrir mér og vil beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hann hafi hugleitt hvaða fyrirkomulag annað væri hægt að hafa á svæðaskiptingunni í strandveiðunum. Hvort hann taki þá hugsanlega undir þær hugmyndir sem reifaðar hafa verið um að miða þetta jafnvel bara út frá einni strandveiðilandhelgi og vera ekki með svæðaskiptingu þannig að menn bara sæki fiskinn þangað sem er styst að sækja hann og ráði hvar þeir landa honum. Svo má jafnvel hugsa sér að einhver löndunarskylda sé bundin við heimahafnir eða eitthvað því um líkt. Hefur þingmaðurinn hugleitt það?

Síðan varðandi framlagið af uppsjávargeiranum með bolfiskvinnslunni inn í samfélagspottinn. Eins og ég sagði áðan er ég tilbúin að skoða þriggja ára aðlögun að því og það verði endurskoðað í ljósi reynslu að ári, en þingmaðurinn nefndi að honum fyndist það of mikil útþynning. Ég vil taka það fram að ég skil það sjónarmið. Ég sé ekki ástæðu til þess að sú útþynning eigi sér stað en mér finnst hins vegar allt í lagi að taka þátt í þeirri aðlögun ef það má verða til þess að leiða til sátta í málinu og verði þá til þess að þetta verði gert þó að það taki aðeins lengri tíma.

Mig langar að spyrja þingmanninn: Sér hann hugsanlega einhverja aðra sáttaleið í þessu máli?