139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég hlýddi á mál hv. framsögumanns þar sem hún kom með breytingartillögur við breytingartillögur sem voru aðrar breytingartillögur frá hv. meiri hluta og ég verð að segja eins og er að ég skildi varla orð. Það skiptir kannski ekki máli. Það er ein allsherjarsorgarsaga hvernig starfið í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur verið, að hér skuli koma breytingartillaga eftir breytingartillögu og breytingartillögur við breytingartillögur. (LRM: Ertu á móti breytingum?) Ég er ekki á móti breytingum á sjávarútvegskerfinu ef þær eru skynsamlegar en ég er ansi hræddur um að breytingartillögur sem gerast með þvílíkum hraða og þar sem menn togast á um hagsmunina í bakherbergjum séu ekki endilega gæfulegar fyrir þjóðina.

Af þessum breytingartillögum eru nokkrar til bóta. Til dæmis er búið að skipa út litlu skeljunum undir 3 tonnum, menn féllust á að þetta væri stórhættuleg aðgerð. 3. gr. fellur út eins og hún leggur sig og þar sem allt frumvarpið var mjög slæmt er vissulega til bóta að eitthvað falli niður.

Í 5. gr. er mikil einföldun. Auðlindarskatturinn er lækkaður úr 16,2% í 13,3% og b-liðurinn fellur burtu þar sem ráðherrann átti að ráðstafa hinu og þessu. Það voru geysilegar heimildir til ráðherrans og það er líka til bóta ef eitthvað fellur niður.

Það eru ekki lengur markaðir tekjustofnar til sveitarfélaga þar sem sumir fá og sumir ekki. Mosfellsbær átti til dæmis ekki að fá neitt en Reykjavík átti að fá eitthvað. Ég veit ekki með Kópavog svo ég tali um sveitarfélögin í nágrenni við mitt kjördæmi. Svo átti að setja þetta inn í fjárlög með orðinu „skal“ sem nú er búið að taka í burtu og þá heitir það „heimilt að“, þ.e. nú hefur fjárlaganefnd að minnsta kosti einhverja heimild til að gera eitt og annað. Hún getur sett 14% í staðinn fyrir 15% ef henni sýnist. Það er sem sagt til bóta að milda þessa mörkuðu tekjustofna.

Í 7. gr. er verið að hræra í pottum og satt best að segja átta ég mig ekki alveg á því hvort breytingartillögurnar séu til bóta eða ekki. Ég er á móti þessu öllu saman, það er mjög einfalt, vegna þess að ég er á móti frumvarpinu í heild sinni. Frumvarpið er slæmt og jafnvel þótt breytingartillögur séu góðar í þeim skilningi að þær fækka göllunum á frumvarpinu er ég á móti því.

Við erum að tala um rómantík. Hv. þm. Lilja Rafney er ekki við — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Lilja Rafney Magnúsdóttir.)

Ég var truflaður af síma í salnum, frú forseti.

Hv. þingmaður sagði að strandveiðar hefðu verið upphaf fiskveiða á Íslandi. Það er rétt en ég get ekki sagt að þjóðin hafi verið sérstaklega rík á þeim tíma. Margur maðurinn missti líka lífið þannig að ég held að það sé ekki æskilegt að hverfa til þess að setja árabáta í allan flotann og veiða allan fisk þannig. (Gripið fram í.)

Þessi rómantík kostar heilmikið. Við getum hugsað okkur að landbúnaðarnefnd kæmist að þeirri niðurstöðu að við ættum að heyja með orfi og ljá og þá kæmi aldeilis líf í sveitirnar, það er ekki spurning, en ég er ansi hræddur um að lambakjötið yrði dálítið dýrt. Það slæma í þessu er kannski að menn eru farnir að hunsa og tala niður til arðsemi. Hún er orðin allt að því slæm og markaður og annað slíkt er ljótt. Ég tel þetta mjög skaðlega þróun.

Ég spyr: Ef þessar strandveiðar og allt þetta dót sem á að fá kvótann ókeypis er svona arðbært, af hverju getur það fólk ekki keypt sér kvóta eins og aðrir? Af hverju þarf það gjafakvóta? — Ég veit að ég á að flýta mér, frú forseti.

Það eru heilmiklar hömlur á sölu á kvóta. Þær eru í fyrsta lagi að menn verða að veiða helminginn af þeim kvóta sem þeir hafa en geta selt eða framselt hinn helminginn. Svo eru pólitískar hömlur, menn óttast alltaf að ef þeir ganga of langt í því að framselja kvóta komi ríkisvaldið eins og með skötuselinn og taki bara af þeim kvótann. Það er það sem útgerðin óttast, jafnvel þeir útgerðarmenn sem hafa keypt kvótann fullu verði sem flestir hafa gert. Síðan er félagslegur þrýstingur. Þeir eru úthrópaðir sem kvótagreifar liggjandi á flatsængum í vellystingum í Suðurhöfum meðan fátækir sjómenn veiða kvótann þeirra. (Gripið fram í: Fljúga líka á þyrlum.) Já, svo fljúga þeir um á þyrlum líka. Svo er byggðaþrýstingur, það má ekki selja kvóta úr byggðarlaginu. Allt þetta minnkar arðsemi kerfisins og gerir það óhagkvæmara.

Afleiðingin af þessum takmörkunum á framsali er að það er minni leigukvóti til leigu, verðið á honum helst hátt og færri geta byrjað nýliðun af því að þeir byrja á því að leigja sér kvóta. Öðruvísi gerist það ekki. Menn hafa yfirleitt ekki efni á að kaupa kvóta fullu verði, a.m.k. ekki fólk sem er ekki þeim mun auðugra. Síðan er greinilega einhver skekkja í framsalinu vegna þess að stundum er verð á leigukvóta hærra en framleiðnin af fiskinum þannig að það er mikil skekkja í þessum kvóta, kvótamarkaðurinn er allt of lítill, allt of takmarkaður og verðið allt of hátt. Og menn ætla sem sagt að auka það enn frekar, taka hluta af þessum kvóta og gefa öðru fólki til að veiða.

Ég hef nefnt það að arðsemi sjávarútvegsins er undirstaða arðsemi hluta íslensks atvinnulífs og sú arðsemi er undirstaða velferðarkerfis sem er nokkuð sem við viljum halda í þannig að þegar menn koma með svona hugmyndir eru þeir að ráðast að rótum velferðarkerfisins. Ég er eindregið á móti því, ég vil nefnilega hafa gott velferðarkerfi, frú forseti.