139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[10:58]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti Við erum á miðri leið á þessu kjörtímabili. Það eru rúm tvö ár frá síðustu kosningum og tæp tvö ár til næstu kosninga. Það er því við hæfi að staldra við, líta yfir farinn veg, sjá hvað hefur unnist og hvað ekki.

Fyrir rúmum tveimur árum stóð forsætisráðherra hér í pontu og ræddi stöðu efnahagsmála. Þá voru 12 þús. manns án atvinnu og þótti mönnum nóg um. Nú eru tæplega 16 þús. manns án atvinnu og það er þrátt fyrir að þúsundir hafi flust brott frá Íslandi.

Og það er ekkert lát á atvinnuleysinu. Atvinnuleysið er ekki bara mannskemmandi samfélagsmein, það kostar líka í beinhörðum peningum. Frá árinu 2008 hafa bráðum farið hátt í 80 milljarðar í atvinnuleysisbætur, fé sem við hefðum viljað nýta til að styrkja innviði samfélagsins — í menntun, í samgöngur, í rannsóknir og heilbrigðismál. Þetta fé hefur því miður þurft að fara til þeirra sem enga atvinnu hafa.

Það er því engum vafa undirorpið að leiðin út úr því ástandi sem við erum að glíma við er sú að skapa störf. Á sama tíma og það verður sífellt erfiðara fyrir fólk að ná endum saman neitar ríkisstjórnin að horfast í augu við vandamálin sem allir aðrir sjá.

Hér á Alþingi þarf að fara að tala um hluti sem skipta máli, gera það sem gera þarf svo fólk geti unnið, staðið við sitt og haft nóg eftir fyrir sig og sína. Þess í stað er tímanum hér löngum stundum varið í mál sem engu skipta fyrir venjulegt fólk. Það ætti að vera forgangsatriði okkar að skapa störf, lækka skatta og sækja fram.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í tvígang lagt fram efnahagstillögur sem í grunninn ganga út á það að nýta tækifærin og efla atvinnulífið. Hversu oft höfum við ekki heyrt forsætisráðherra flytja ræðu á borð við þá sem hér var flutt rétt áðan þar sem talin voru upp öll þau fjölmörgu atriði sem horfa til betri vegar einhvern tímann í framtíðinni? Það eru frasarnir „eftir helgi“, „í næstu viku“, „í lok árs“, jafnvel „á næstu árum“, 2013–2016 eru ártöl sem nefnd voru í ræðunni sem rétt er nýlokið við.

Eitt kjörtímabil er fjögur ár, virðulegi forseti, og þessi ríkisstjórn tók að sér á þessu kjörtímabili að snúa málum úr vondri stöðu í betri. Það hefur mistekist. Til þess að Alþingi endurvinni traust þjóðarinnar verðum við að forgangsraða upp á nýtt, hætta að tala um hlutina og fara að framkvæma. Við sem þingmenn höfum þá skyldu að virkja fólk til uppbyggingar og athafna. Ég tel að íslenska þjóðin viti vel að besta leiðin til að takast á við okkar tímabundnu efnahagslegu þrengingar er að vinna sig út úr vandanum og til þess er þjóðin tilbúin. Ríkisstjórnin er einfaldlega ekki í takt við þjóðina. Fyrir tveimur árum ræddi forsætisráðherrann um skjaldborgina fyrir heimilin. Það blasir við hverjum sem er að þau áform hafa ekki gengið eftir. Í stað þess að horfast nú í augu við þann veruleika er haldið áfram á sömu braut og ástandið bara versnar.

Hér er eitt lítið dæmi úr fréttum þessarar viku: ,,Einstaklingum í alvarlegum vanskilum hefur fjölgað um tæp tíu prósent frá áramótum. Á þriðja tug þúsunda var í alvarlegum vanskilum um síðustu mánaðamót en ungt fólk er einna verst statt.“

Er vandinn sá að við í stjórnarandstöðu séum of neikvæð, að við tölum allt niður? Nei, við höfum lagt kapp á það að benda á tækifærin og reyna að opna augu ríkisstjórnarinnar fyrir því að þetta þarf ekki að vera svona. Og við skynjum það hjá þjóðinni að hún finnur það hjá sér að tækifærin eru til staðar.

Forsætisráðherra vék að orkumálum, gaf í skyn í aðra röndina að þar lægju fjölmörg tækifæri en í hina var sífellt dregið úr væntingunum með því að segja að það þyrfti að fara svo varlega. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í orkumálum? Er einhver einhugur um það að virkja neðri hluta Þjórsár? Mér sýnist að rammaáætlunin ætli að verða pólitískt plagg, tekið úr þeim faglega farvegi sem það hefur verið í undanfarin ár. Er það líklegt til þess að draga hingað heim aukna erlenda fjárfestingu, t.d. í orkutengdum verkefnum, að reka þá skattstefnu sem ríkisstjórnin hefur gert, að hringla stöðugt með skattana, að koma með sérstakan skatt á þá sem eru í orkufrekum iðnaði? Er það líklegt til að auka traust okkar Íslendinga sem vænlegs fjárfestingarkosts að fara inn í fjárfestingarsamningana, eins og ríkisstjórnin hefur þegar gert á þessu kjörtímabili og hótaði nýlega að gera aftur, að taka upp samkomulagið við orkufrekan iðnað í landinu og stokka spilin upp á nýtt? Eykur þetta möguleika okkar til þess að fá fjárfestingu? Og til upplýsingar fyrir hæstv. forsætisráðherra mætti geta þess að meðal frétta dagsins í dag er að við Íslendingar erum á botni Evrópska efnahagssvæðisins hvað fjárfestingar varðar.

Þetta eru bara harðar tölur, þetta eru staðreyndir dagsins í dag sem við verðum að taka með í reikninginn þegar við efnum til umræðu um atvinnu- og efnahagsmál. Þetta er staðan í dag.

Við vitum öll að fyrri kynslóðir þessa lands hafa tekist á við kreppu og þær hafa tekist á við meiri vanda en þann sem við erum að glíma við. Mér er þó til efs að fyrri kynslóðir hafi nokkru sinni séð jafnáttavillta ríkisstjórn og þá sem nú situr, ríkisstjórn sem er í engu líkleg til að leysa vandann. Fólk fær að nýju trú á framtíðina þegar það sér að á Íslandi er hægt að sjá sér og sínum farborða og að við stefnum öruggum skrefum að því að verða aftur fremst landa í heimi í lífskjörum. Það er sú staða sem við eigum að stefna á að endurheimta. En núverandi ríkisstjórn fæst við hvern vandann á fætur öðrum með því að skipa nefnd. Það er hægt að drepa margt í nefndum en það hefur enginn drepið kreppu í nefnd.

Frú forseti. Eitt mikilvægasta efnahagsmál þjóðarinnar er að sátt ríki um stjórn fiskveiða. Forsætisráðherra hefur valið að stríða um þetta mál, án raka, án þess að hlusta og án þess að hugsa — að því er virðist. ASÍ, Landsbankinn, sjómenn, útgerðarmenn og sveitarfélögin mótmæla öll fyrirhugaðri kollsteypu þessa fjöreggs þjóðarinnar. Forsætisráðherra sem bauðst sátt í málinu, sátt sem hennar eigin flokksmenn lögðu til, sátt sem samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn lagði til, hafnaði sáttinni. Því er sjávarútvegurinn í uppnámi og þar af leiðandi eitt mikilvægasta fjöregg þjóðarinnar.

Ég spyr: Hversu lengi ætlar það skynsama fólk sem vissulega fyrirfinnst í stjórnarflokkunum að sitja undir þessari vitleysu? Hversu tæpt á að tefla? Öll álit þeirra sem koma að greininni með einhverjum hætti og óháðra sérfræðinga eru á einn veg, að frumvarp ríkisstjórnarinnar sé hættulegt. Það örlar á skynsemi í því að frumvarpinu hefur verið frestað fram á næsta þing en ég verð að segja að viðbrögð stjórnarþingmanna við umsögnum gefa ekki von um að skynsemin fái að ráða.

Frú forseti. Hér var minnst á samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og því haldið fram að það væri holl lesning fyrir stjórnarandstöðuna að kynna sér mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðu efnahagsmála í dag. Ég tel að það væri holl lesning fyrir ríkisstjórnina, fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. forsætisráðherra, sem setið hefur nú í ríkisstjórn í fjögur ár, að kynna sér áformin eins og lagt var af stað með þau á árinu 2008. Þá var lagt upp með það að við mundum afnema gjaldeyrishöft á árinu 2010, á síðasta ári. Nú er ríkisstjórnin með fyrir þinginu frumvarp um að framlengja höftin í nokkur ár í viðbót og lögfesta þau. Þá var lagt upp með það að verðbólgan ætti að fara í 4,5% árið 2009 og fara lækkandi. Nú spáir Seðlabankinn því að hún stefni í 7% á næsta ári. Ekki hefur það þá gengið vel eftir. Þá var því spáð árið 2008, þegar lagt var af stað, að við gætum farið að upplifa hagvöxt á árinu 2011, jafnvel kraftmikinn hagvöxt, jafnvel hagvöxt eins og forsætisráðherra hefur sjálf sagt að þyrfti að vera á Íslandi, 4%, kannski meira en það. Seðlabankinn segir að á næsta ári verði hagvöxtur eitt koma eitthvað prósent. Er hægt að standa uppi með einhvern vott af trúverðugleika og halda því fram að planið hafi gengið eftir? Við erum föst í höftum, við erum í algjörri stöðnun. Okkur vantar hagvöxtinn sem við erum sammála um að við sækjumst eftir. Það hjálpar okkur ekkert að horfa fram hjá þessum augljósu staðreyndum.

Frú forseti. Ríkisstjórnin virðist lifa til þess að koma einstaka málum fram á þessu kjörtímabili sem hafa lítið með hag almennings að gera. Hún virðist til dæmis lifa á því, hangir á því að keyra áfram aðildarumsóknina að Evrópusambandinu.

Ég spyr: Til hvers? Hverju á það að skila á þessu kjörtímabili? Fólk talar um að það vilji sjá hvað kemur út úr viðræðunum. Hvaða rétt höfum við Íslendingar til þess að draga 27 Evrópusambandsríki að viðræðuborðinu til þess eins að sjá hvað kemur út úr því? Af þeirra hálfu liggur málið alveg skýrt fyrir, þau hafa komið sér saman um reglurnar. Þau ætlast til þess að þeir sem knýja dyra vilji komast þar inn, eins og regluverkið hefur verið samið af þeim sameiginlega. (Gripið fram í: Þetta er náttúrlega …) Þetta er staðreynd málsins, þetta er það sem menn verða að fara að taka með í reikninginn þegar talað er um Evrópusambandsmálið.

Ríkisstjórnin stefnir nú lóðbeint í að verða sú óvinsælasta frá því að mælingar hófust. Það er bara eitt sem allar óvinsælustu ríkisstjórnir í rúma tvo áratugi eiga sameiginlegt, bara eitt, og það er að núverandi forsætisráðherra hefur setið í þeim öllum. Þessi ríkisstjórn er ekki starfhæf, hún styðst við minnsta mögulega meiri hluta á þingi, hún nýtur stuðnings þriðjungs kjósenda. Það blasir við öllum að stokka þarf spilin upp á nýtt, það þyrfti að ganga til kosninga, horfa til framtíðar. Við þurfum nýtt upphaf.