139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:19]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi hefur ekki komið inn á okkar borð að aðrar greinar en sjávarútvegurinn gætu þurft á svipaðri fyrirgreiðslu að halda. Ég held að það sé mjög mikilvægt að skoða líka hvort miða á við einhverja heildarafkomu viðkomandi greinar hvort hægt sé að halda mönnum á launaskrá, að það sé ekki alveg sjálfkrafa, jafnvel þó að maður hafi verulega góðar tekjur og missi úr viku í vinnu þá sé eðlilegra að fyrirtækið haldi mönnum á launaskrá og geti bara eðlilega borið það. Við þurfum að fara yfir þetta í heild. En það væri auðvitað fróðlegt að vita hvað menn hafa í huga varðandi aðrar greinar. Það hefur ekki komið inn þannig að ég hafi tekið þátt í þeirri umræðu.

Hins vegar má segja varðandi hlutaatvinnuleysisbæturnar að við verðum að skoða það allt vel. Ég held að eðlilegt sé að við reynum að eiga frumkvæði að því að kalla eftir upplýsingum um þetta frá öðrum löndum en síðan er eðlilegt að umræðan eigi sér stað bæði í þinginu og hjá okkur.

Það má heldur ekki gleyma því að Atvinnuleysistryggingasjóður og Vinnumálastofnun raunar líka eru með fulltrúa atvinnulífsins, ráðuneytisins og fleiri aðila sem koma þar að borðinu. Þar eru málefni sjóðsins sem er í raun og veru byggður fyrst og fremst á skattgreiðslu á atvinnulífið. Ég tel því mjög eðlilegt að þetta sé líka rætt mjög ítarlega þar af því að það eru raunverulegu greiðendurnir að þessum útgjöldum. Og þó að við segjum að þetta íþyngi ríkissjóði íþyngir það fyrst og fremst atvinnulífinu að þurfa að borga atvinnuleysisbætur. En af því að við gerum ríkissjóð upp á greiðslugrunni kemur þetta inn í heildarveltuna þar, sem skiptir auðvitað miklu máli varðandi umsvif ríkisins. Ég held því að við þurfum að fara vel yfir þetta.

Ég vil taka fram að hv. félags- og tryggingamálanefnd hefur einmitt verið virkur aðili í sambandi við lagasetningu t.d. um greiðsluaðlögunina og útfærsluna á henni, leiðréttingar og lagfæringar að óskum þeirra sem hafa veitt þá þjónustu. Það hefur verið mjög gott samstarf á milli framkvæmdarvaldsins og nefndarinnar þar sem athugasemdir hafa getað komið úr hvorri áttinni sem er og menn hafa þá gripið til þess að reyna að bæta umhverfið, sem eru vinnubrögð þar sem markmiðið (Forseti hringir.) er fyrst og fremst að ná betri árangri.