139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

uppbygging fangelsismála.

[10:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Allt það sem fram kemur í máli hv. þingmanns er satt og rétt. Hann vitnar í mín fyrri ummæli og þau eru líka rétt.

Um þetta mál vil ég segja að nýtt fangelsi hefur lengi verið í kortunum og til umræðu, ekki bara í ár heldur áratugi. Sitt hefur hverjum sýnst um hvernig eigi að standa að því hvers konar fangelsi við þurfum og hvar eigi að reisa það. Það er rétt að eitt af því sem við vildum skoða, m.a. ég, var að íhuga mismunandi staðsetningu og þá jafnvel að einstök byggðarlög gætu teflt fram valkostum sem gögnuðust skattborgaranum sem best. Ég hef átt viðræður við sveitarfélög á Reykjanesi, í Árborg og víðar. Niðurstaðan eftir ítarlega könnun er sú að það sé hagkvæmast, fyrst og fremst fjarlægðarinnar vegna, að reisa fangelsið á Hólmsheiði.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni þegar hann vísaði til minna fyrri orða um samkeppni byggðarlaga. Þetta var eitt af því sem kom til álita. Sjálfum finnst mér sérstaklega ógeðfelld tilhugsun, og því verri eftir því sem málið var nánar skoðað, að láta sveitarfélög keppa um það sín í milli að bjóða niður eigin skattkerfi. Þetta hefur tíðkast en ég tel það ekki til fyrirmyndar. Það er rétt að þessi kostur var uppi á borðinu síðasta haust en síðan höfum við farið rækilega yfir öll gögn sem byggt hefur verið á, og þau eru mörg og mikil, miklar skýrslur eru til. Niðurstaðan er sú (Forseti hringir.) að hagkvæmast fyrir skattborgarann og fangelsiskerfið sé að reisa nýtt gæsluvarðhalds- og öryggisfangelsi á Hólmsheiði.