139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það svo að ég er ekki eini maðurinn sem hlýddi á ágæta ræðu hv. þingmanns, ég reikna með því að úti í þjóðfélaginu séu það jafnvel þúsundir, og nú stendur sú brennandi spurning eftir: Hver var þessi ráðherra? Ég held að það sé bara einfaldara að geta um nafnið í staðinn fyrir að allir fari að fletta upp einhverjum æviágripum.

Ég er ekki sammála hv. þingmanni í því að við eigum að líta á þróun annars staðar. Við getum líka verið í fararbroddi á vissum sviðum og við gætum verið í fararbroddi á þessu sviði. Ég hef þá trú að kennsluforrit sem er í rauninni ígildi kennslu geti bætt menntakerfið allverulega. Kennarar eru mjög mismunandi, sumir eru alveg frábærir kennarar, aðrir eru miður góðir kennarar. Aðstaðan er misgóð og mismunandi, sums staðar mjög góð, annars staðar ekki eins góð. Ég vil að þessir frábæru kennarar setjist niður með frábærum forriturum og búi til frábær kennsluforrit sem eru ekki síður hvetjandi en Eve Online eða eitthvað slíkt, þannig að það verði sem sagt leikur að læra með tölvuleik.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er ekki rétt að við hv. þingmenn tökum okkur á og reynum að gera átak í því að kennsluforrit séu skattlögð eins og menntakerfið í heild sinni, annaðhvort undanþegin skatti eða þá með þessu lága þrepi 7% og jafnvel 0%? Nú þekki ég þetta ekki nákvæmlega, ég veit ekki hvort það er 0% skattur einhvers staðar en heilmikið af þjóðfélaginu, heilbrigðiskerfið, menntakerfið o.s.frv. er undanþegið skattskyldu. Það er munur á því og að segja að það sé 0% af því þeir geta ekki notað innskattinn. En ég vil spyrja hv. þingmann að þessu, hvort það sé ekki rétt að við tökum ákveðið frumkvæði hér á Íslandi í því að gera kennsluforrit skattlaus.