139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ein helstu rök stjórnarliða fyrir því að nauðsynlegt sé að festa í lög framkvæmd gjaldeyrishaftanna eru þau að hætta sé á að refsiákvæðin standist ekki fyrir dómstólum. Ég vil því, virðulegi forseti, leita álits hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar á þeim rökum vegna þess að þau hafa vafist svolítið fyrir mér.

Ég geri mér grein fyrir að við þurfum einhvers konar gjaldeyrishöft og er ekki tilbúin að aflétta þeim alveg strax eins og margir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa gefið í skyn að sé nauðsynlegt. Þess vegna er ég ekki búin að móta skoðun mína á því hvort ég sitji hjá við afgreiðslu þessa frumvarps eða ekki og þá með þeim rökum að nauðsynlegt sé að hafa það á hreinu hvað er löglegt og hvað ólöglegt varðandi framkvæmd haftanna.

Frú forseti. Ég ætla jafnframt að spyrja hv. þingmann út í stefnu Sjálfstæðisflokksins um lausn á þessari gjaldmiðilskreppu af því að hún er ekki alveg ljós í mínum huga. Hver er stefna Sjálfstæðisflokksins varðandi afnámið? Á að leyfa frjáls viðskipti á morgun? Ef við viljum fara þannig að, hvernig á að koma í veg fyrir gengisfall krónunnar, sem hv. þm. Pétur Blöndal viðurkenndi að mundi sennilega gerast?

Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að slíkt gengisfall mun þýða aukna verðbólgu og aukin verðbólga fer inn í verðtryggð fasteignalán og slíkt gengisfall mundi þá þýða mikla erfiðleika fyrir skuldsett heimili.