139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

matvælaöryggi og tollamál.

[15:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Til að gera grein fyrir stöðu þeirra mála sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir reifar hér vil ég fyrst nefna að aðild Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni var staðfest með lögum 1995. Með þeim var breytt tollalögum, lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og lögum um dýrasjúkdóma í samræmi við þær skuldbindingar sem Ísland gekkst þá undir. Afnumdar voru viðskiptatakmarkanir með landbúnaðarvörur og þær umreiknaðar í tollabindingar sem skyldu takmarka hámark tolla af viðkomandi afurðum, enn fremur skuldbindingar um að leyfa svokallaðan lágmarksaðgang fyrir tilteknar landbúnaðarafurðir sem er tilgreindur sem magn tiltekinnar afurðar á hverju ári. Ísland samþykkti að binda grunntaxta tolla fyrir einstakar landbúnaðarafurðir við tiltekna prósentu að hámarki eða fasta upphæð á kíló, magntoll, sem tilgreindur er í SDR vegna þess sjónarmiðs að verðbólga á Íslandi var og hefur verið mun meiri en í viðskiptalöndum okkar.

Í texta laganna frá 1995 segir:

„Tollur á vörur frá aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar má eigi vera hærri en þær tollabindingar sem tilgreindar eru í viðaukum IIA og IIB [sem eru skrár um tollabindingar fyrir einstakar afurðir] […]. Miðist tollabinding bæði við verð og magn skal hámarkstollur miðast við þá bindingu sem hærri álagningu leyfir.“

Þá bauð Ísland lágmarksaðgang fyrir tilteknar afurðir sem var um 3% af innanlandsneyslu við upphaf samningsins en hækkaði í 5% á fimm árum. Ísland skuldbatt sig við að á þann innflutning skyldu tollar vera 32% af grunntaxta tollabindingar samkvæmt viðaukum IIA og IIB eins og ég nefndi áðan. Ég legg áherslu á að þetta eru samningsskilyrði.

Í samningi Íslands við Alþjóðaviðskiptastofnunina er flokkun á afurðum húsdýra mjög fábrotin og mun fábrotnari en er í gildandi tollskrá. Þetta leiðir til að verulegs mismunar gætir milli tollálaga á lágmarksinnflutning sömu dýraafurðar séu magntollar og verðtollar bornir saman. Þetta kemur skýrt fram ef tollur af nautakjöti er skoðaður. Allt beinlaust nautakjöt fer undir sama gjaldflokk sem er kr. 935 kr./kg, þ.e. 114%. Sé beitt magntolli sem felur í sér krónutöluálagningu verður að greiða 935 kr. við innflutning á kíló af ódýrustu tegund, svo sem hakki, þ.e. sama og lagt væri á úrvalslundir. Sé hins vegar lagður á verðtollur skal hann vera 114% og endurspeglar því fullkomlega verðmæti innflutningsins.

Þetta segir okkur að magntollar hvetja til innflutnings á svokallaðri lúxusvöru en verðtollar hvetja til innflutnings á afurðum á lágu verði, auk þess sem hagkvæmni við innflutning skilar sér þá betur. Staðreyndin er sú að ef tollverð fyrir beinlaust nautakjöt sem ég hef tekið hér dæmi um er lægra en 820 kr./kg borgar sig fyrir neytandann að innflutningurinn fari fram á verðtollum, en magntollum sé það hærra.

Ákvörðun mín um að taka frekar upp verðtolla en magntoll vorið 2010 byggði á þessum forsendum meðal annars, auk þess sem vitað var að ekki var tilgengilegur gjaldeyrir í landinu fyrir lúxusvarningi sem magntollaleiðin gefur forskot.

Það er vitaskuld óvanalega dýr matvara sem kostar í heildsölu 2.000 kr./kg sem er það dæmi sem vikið var að í fjölmiðlum fyrir skemmstu. Ef við tökum aftur á móti mið af því hvað gerist með nautakjöt sem kostar 400 kr./kg í heildsölu erlendis snýst dæmið algjörlega við.

Frú forseti. Ég kem betur að spurningum hv. þingmanns. Ég vil þó minna hv. þingmann á að í lok hrunsins, hrunsins sem hv. þingmaður átti ekki hvað síst aðild að í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum í bullandi frjálsræði, (Forseti hringir.) var fyrsta spurningin hvort þjóðin hefði mat, (Forseti hringir.) hvort fólkið í landinu hefði aðgang að ódýrum mat. Fæðuöryggi er hluti af sjálfstæði þjóðar.