139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

matvælaöryggi og tollamál.

[15:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér matvælaöryggi og tollamál. Matvælaöryggið er hverri þjóð gífurlega mikilvægt. Það sýndi sig vel þegar bankahrunið dundi yfir Ísland, þá kölluðu stjórnvöld strax eftir upplýsingum um hve miklar birgðir af innlendri matvælaframleiðslu væri til í landinu. Þegar gjaldeyrir er takmarkaður verðum við að geta treyst því að fæðuöryggi sé tryggt með öruggum hætti fram í tímann. Stjórnvöldum ber því að standa vörð um innlenda matvælaframleiðslu, svo einfalt og sjálfsagt er það.

Mikil umfjöllun hefur verið undanfarið um tolla á innfluttum landbúnaðarvörum og blásið upp að skortur hafi ríkt í innlendri kjötframleiðslu í sumar. Það var fullyrðing sem hefur ekki staðist nánari skoðun. Tollar eru ekki séríslenskt fyrirbæri. Flest lönd standa vörð um landbúnað sinn og hafa tolla. ESB leggur líka tolla á innflutt lambakjöt frá Íslandi sem er flutt til ESB umfram gagnkvæma tollfrjálsa samninga við Ísland. Evrópuríkin leggja einnig talsvert háa tolla á búvörur sem fluttar eru inn frá ríkjum utan Evrópusambandsins. Þar má nefna tolla á matvæli frá Asíulöndum, svo sem hrísgrjón og fleira.

Landbúnaðarframleiðsla er hverri þjóð mjög mikilvæg. Í 19. gr. EES-samningsins skuldbundu samningsaðilar sig til þess að halda áfram viðleitni sinni til að auka frjálsræði með landbúnaðarafurðir. Ísland og ESB gerðu með sér gagnkvæmt samkomulag á grundvelli þessa ákvæðis sem tók gildi 2007. Þar er kveðið á um tollalækkun, tollkvóta eða afnám tolla á tilteknum búvörum.

Álit umboðsmanns Alþingis á skattlagningarheimildum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er í skoðun hjá þeim ráðuneytum sem í hlut eiga en unnið hefur verið út frá núgildandi lögum. Ég tek undir það álit umboðsmanns Alþingis að brýnt sé að skattheimildir framkvæmdarvaldsins séu skýrar í lagatexta.