139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir að koma hér einn samfylkingarmanna og taka þátt í umræðunni, það er virðingarvert. Hins vegar verð ég að lýsa miklum vonbrigðum með þessa ræðu sem mér fannst einkennast af gamaldagssmjörklípuaðferðum vegna þess að það var ekki verið að fjalla um það mál sem við erum að ræða í dag, þ.e. gjaldeyrishöftin sem Samfylkingin ætlar að lögfesta út árið 2015. Þingmaðurinn sagði að það væri mat bestu sérfræðinga að þetta væri besta leiðin. Ég spyr: Hefur þingmaðurinn lesið umsagnirnar? Ég vísa t.d. í umsögn Kauphallarinnar sem segir allt annað. Ég leyfi mér að fullyrða að þar séu sérfræðingar. Þetta eru íþyngjandi úrræði og það er ekki búið að sýna fram á að önnur tiltæk ráð hafi verið til staðar.

Þá spyr ég þingmanninn að því atriði sem við höfum verið að ræða í dag: Hvers vegna var ekki unnin sú lögfræðilega og hagfræðilega úttekt sem boðuð var þegar samkomulag náðist hér fyrir þinghlé? Hvers vegna mætum við til þings algjörlega á sama stað og við vorum þegar við skildum seinast við?