139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

ársreikningar.

698. mál
[22:56]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. ræðir hér um krosseignatengsl, um ábyrgð endurskoðenda um kaupréttarákvæði og reglur þar um, um verðlaus hlutabréf eða hlutabréf sem töpuðu verðgildi sínu, um eigendur, um framsetningu ársreikninga og að ekkert sé að marka þá, hvorki hér né annars staðar í heiminum. Allt kann þetta að vera rétt og vera þörf umræða.

Það sem við ræðum hins vegar hér er mjög einfalt og lítið frumvarp sem leiðir í lög reglur sem nú þegar hafa verið í gildi hér samkvæmt leiðbeiningum frá Kauphöllinni og fleirum, eins og ég rakti. Þetta snýst um tvennt. Annars vegar að árlega skuli birta yfirlýsingu um stjórnarhætti félags í skýrslu stjórnar eins og nefndin leggur til. Talið er upp hvað skuli koma fram í þeirri yfirlýsingu, m.a. tilvísanir í reglur, leiðbeiningar og handbækur um stjórnarhætti, hvar þessar reglur sé að finna og upplýsingar um hvar þær eru aðgengilegar almenningi, einnig að ef félagið víkur frá reglum eða öðru skuli greina frá ástæðum fráviksins. Sama gildi um móðurfélag. Þetta er annað atriðið og er ósköp einfalt eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi.

Hitt atriðið er að ársreikningaskrá skuli hafa eftirlit með því hvort ársreikningur félags sem er utan Evrópska efnahagssvæðisins sem saminn er samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum heimaríkis sé hliðstæður ákvæðum þessara laga. Annað er ekki í þessu frumvarpi, hv. þingmaður.

Ég vona að við getum lokið 2. umr. um þetta og leitt frumvarpið í lög eins einfalt og það er og tekið svo málfund um efnahagsmálin í víðu samhengi við annað tækifæri.