139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

grein um skólabrag í grunnskólalögum.

[11:14]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina. Það er sannarlega mikilvægt að ræða þá þætti sem hér eru nefndir. Það var einhver yfirvegaður þingmaður sem sagði, kannski meira og minna við sjálfan sig á leiðinni fram hjá ráðherrabekknum rétt áðan, að við þyrftum kannski líka að ræða þingbraginn rétt eins og skólabraginn.

Varðandi eftirfylgni nýrra laga í þessu efni er það hefðbundið verklag hjá skrifstofu menntamála í ráðuneytinu að senda helstu hagsmunaaðilum bréf þar sem vakin er athygli á viðkomandi lögum og reglugerðum. Það var gert í tilviki þeirra breytinga á grunnskólalögum sem hér eru til umfjöllunar og samþykktar voru á Alþingi nú í júní.

Hvað varðar sérstaklega ákvæði laganna um skólabraginn er gert ráð fyrir setningu reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins sem kemur einmitt inn á þann þátt sem þingmaðurinn nefndi í fyrirspurn sinni, þ.e. samvinnuna og aðild allra sem koma að málinu. Það hefur verið unnið að undirbúningi þeirrar reglugerðar undanfarna mánuði og formlegu samráðsferli hagsmunaaðila er lokið. Kostnaðarmati er líka lokið og reglugerðin er í sjálfu sér tilbúin í hefðbundið útgáfuferli. Í kjölfarið verður unnið að verklagsreglum sem tengjast skólareglum og agamálum, þar með talið eineltismálum, og þær reglur verða væntanlega unnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Einnig má geta þess að það er starfandi verkefnisstjórn þriggja ráðuneyta um eineltismál, menntamála-, velferðar- og innanríkisráðuneytis, sem horfir sérstaklega til þeirra þátta sem varða einelti en eins og kemur fram í máli þingmannsins er það gríðarlega alvarlegt mein sem þarf að takast á við af ábyrgð og einbeitingu.