139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

fundarstjórn.

[12:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að það er óþarfi að vera með einhver læti um þetta mál. En hvar voru mestu lætin? Við skulum hugleiða það.

Mig langar í raun að spyrja hv. formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar sömu spurningar og kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni: Hvar í vinnsluferlinu er málið statt, á hvaða stigi er það? Það er langt síðan beðið var um þennan fund. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmann að minnast þess að hann á orðastað við forseta um fundarsköp.)

Virðulegi forseti, það er hárrétt. Ég biðst afsökunar á þessu.

Virðulegi forseti. Við þurfum að fá að vita hvar vinnsluferlið er statt, hvar við erum stödd í þessu ferli. Hér er mikið talað um ný vinnubrögð. Eru það ný vinnubrögð að svæfa hlutina í svokölluðu vinnsluferli eða í vinnslu? Ég trúi ekki að svo sé. Hvenær verður fundurinn haldinn? Það er búið að koma fram að hann verður haldinn á þessu ári sem hlýtur að teljast býsna mikið afrek. Verður hann þá haldinn í (Forseti hringir.) þessum mánuði eða í næsta mánuði, frú forseti?