139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[14:15]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. formanni iðnaðarnefndar fyrir ágætisframsögu þó að hann hafi ekki náð að klára hana. Hann gæti kannski tekið sér til fyrirmyndar einhvers konar tungufoss og reynt að mæla hraðar. Hvað um það. Hér er merkilegur atburður að gerast ef þetta frumvarp verður að lögum eins og allt lítur út fyrir. Í fyrsta skipti frá 1923 eða reyndar fyrr er samstaða um þau lög sem gilda um vatn á Íslandi eða fyrirkomulag vatnsréttinda. Þetta er um margt merkilegt. En málið olli gríðarlegum deilum þegar það varð að lögum 1923 eða í aðdraganda þess og æ síðan þegar málið hefur verið tekið upp hafa orðið miklar deilur um það.

Ég ætla ekki að fjalla mikið efnislega um frumvarpið vegna þess að formaðurinn gerði ágætlega grein fyrir efnislegum atriðum. Þar sem ég stend að nefndarálitinu, að vísu með fyrirvara, tel ég ekki að fara þurfi mjög djúpt í það heldur langar mig til að rekja tilurðina og enda á þeim nótum að kannski ættu sumir að passa sig aðeins meira í umræðunni en þeir gera.

Þannig eru mál með vexti að opinberir aðilar eiga nú um 75% af öllum vatnsréttindum á Íslandi og landeigendur, sem flestir eru bændur, eiga 25%. Fyrirkomulag á vatnsréttindum hefur að mestu verið með sama hætti frá landnámi. Það kemur berlega fram bæði í Grágás og Jónsbók og síðan náttúrlega í vatnalögunum frá 1923. Hefðin hefur verið að almannahagsmunir hafa verið tryggðir en myndast hefur séreignarréttur hjá landeigendum. Þannig segja lögin frá 1923 að landeigendur hafi afnota- og nýtingarrétt á vatni á landi sínu þrátt fyrir að vatn sé talið almannagæði í lögunum. Dómaframkvæmdin hefur aftur á móti verið á þann veg síðustu 90 ár að vatn hefur verið meðhöndlað sem sérgæði. Þetta hefur m.a. komið fram í því að bændum hafa verið dæmdar bætur þegar vatn er tekið eignarnámi af landi þeirra. Bestu dæmin um það eru eignarnámsbætur sem landeigendur hafa fengið vegna virkjana í landi sem Landsvirkjun hefur þurft að taka eins konar eignarnámi, t.d. eins og þegar Blanda var virkjuð, vegna Þjórsár, og fyrir dómstólum er deila á milli landeigenda og Landsvirkjunar um hvað skuli bæta landeigendum fyrir svæðið sem fór undir Hálslón eða svæðið við Kárahnjúka. Jafnframt hafa einkaaðilar sem vilja nýta vatn á jörðum landeigenda í stórum stíl, til að mynda til að flytja út, greitt landeigendum fyrir afnotin.

Þrátt fyrir að í lögunum frá 1923 sé talað um vatn sem almannaréttindi er öll dómaframkvæmd í þá áttina að um sérréttindi sé að ræða. Þar af leiðandi má segja að öll framkvæmd alveg frá landnámi sé á þann veg að einkaeignarréttur hafi verið nokkuð tryggður yfir landi en með fyrirvörum eins og ég mun koma að síðar.

Deilurnar hafa snúist um hvað sé einkaeignarréttur, hvað sé almannaréttur o.s.frv. Margir hafa sagt að með því að skýra þá dómaframkvæmd sem verið hefur og breyta orðalagi þannig að sérrétturinn sé skýrður í lögum sé verið að einkavæða vatnið. Það er auðvitað alrangt, það er ekki verið að einkavæða vatnið. Lögin hafa alltaf kveðið skýrt á um að heimilisnotkun og vatnsveitur fyrir t.d. byggðarlög njóti forgangs, þar á eftir komi búrekstur og þar á eftir önnur not. Þrátt fyrir að dómaframkvæmdin sé sú að vatnsréttindi séu sérgæði hefur alltaf legið ljóst fyrir að almenningur hefur aðgang að vatni, þ.e. til heimilisnota og til búreksturs.

Vorið 2006 urðu miklar deilur þegar orðalag ákvæðis um eignarráð yfir vatni var skýrt, þegar það var skilgreint að þetta væri sérréttur. Við 2. umr. um frumvarpið árið 2006 náðu þingflokkar samkomulagi um meðferð þess en hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra, sem mig minnir að hafi verið frá Framsóknarflokknum, gerði grein fyrir málinu 15. mars 2006. Fól samkomulagið í sér að ráðherra mundi eftir að frumvarpið hefði verið samþykkt skipa nefnd sem taka skyldi til skoðunar samræmi laganna við önnur ákvæði íslensks réttar um vatn og vatnsréttindi. Samkomulagið fól jafnframt í sér að gildistöku vatnalaganna frá 2006 yrði frestað til 1. nóvember 2007, en þá mundu eldri vatnalög frá 1923 einnig falla úr gildi. Nefndin var ekki skipuð og gildistökunni var enn frestað eða til 1. nóvember 2008. Nefndin var loks skipuð þverpólitískt í janúar 2008 og skilaði hún af sér 215 blaðsíðna skýrslu í september 2008. Raunverulegur afrakstur hennar voru fjórar tillögur. Ein af tillögunum var að fresta skyldi gildistöku vatnalaganna frá 2006 og að ný nefnd yrði skipuð sem hefði það hlutverk að vinna að endurskoðun laganna eða eins og segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Í fjórða lagi leggur Vatnalaganefnd til að gildistöku vatnalaga nr. 20/2006 verði frestað tímabundið meðan nefnd sem skipuð verði á vegum iðnaðarráðherra, og í samráði við umhverfisráðherra og forsætisráðherra, vinni að endurskoðun laganna í samræmi við tillögur Vatnalaganefndar.“

Svo mörg voru þau orð. Í kjölfarið var gildistöku vatnalaga frestað til 1. júlí 2010 og þann 1. júlí 2009 eða einu ári fyrir gildistöku laganna var vatnalaganefnd 2 skipuð, en nú bar svo við að ekki var leitað til stjórnarandstöðu á neinn hátt um aðkomu. Þann 1. desember 2009 skilaði nefndin drögum að frumvarpi um ný vatnalög til iðnaðarráðherra. Iðnaðarnefnd voru hins vegar ekki kynnt þessi drög, heldur fór að berast einhver pati af því að þau væru til og nefndin fékk að heyra undan og ofan af þessu framan af þangað til að nefndin fékk loks aðgang að drögunum en ljóst er að þetta var ekki í anda þess samkomulags sem var gert. Það er skemmst frá því að segja að þetta frumvarp eða afbrigði þess kom síðan til umræðu á Alþingi og olli miklum deilum sem lauk með því að lögunum frá 2006 var enn og aftur frestað og endurskoða átti nýja frumvarpið. Síðan kom upp úr kafinu á yfirstandandi þingi að tekin hafi verið ákvörðun um að festa í sessi lögin frá 1923 sem kveða á um vatn sem almannagæði en með dómaframkvæmd að vatn sé sérgæði. Í raun er því verið að festa í sessi það fyrirkomulag sem ríkt hefur í meðferð vatnsréttinda alveg frá upphafi landnáms má segja. Gerðar hafa verið ýmsar breytingar á lögunum frá 1923, t.d. eru allir stjórnskipunarkaflar endurskoðaðir, og þetta er fært til nútímahorfs en inntaki laganna er ekki breytt.

Eins og áður sagði er það algert nýmæli að allir flokkar standi að þessum lögum þó svo að ýmsir nefndarmenn séu með fyrirvara en þeir snúa ekki að grundvallarhugmyndinni heldur smáagnúum. Þetta er mikil nýbreytni í umfjöllun um vatnsréttindi á Íslandi. Það vakti því óneitanlega athygli þegar hæstv. iðnaðarráðherra kom fram í fjölmiðlum og talaði um að nú sé miklum áfanga náð, að nú sé verið að afnema einkarétt á vatni. Eins og ég hef farið yfir er þetta bandvitlaus túlkun hjá hæstv. ráðherra. Annaðhvort er hún að gera þetta vísvitandi eða hún skilur einfaldlega ekki um hvað málið snýst. Ég ætla ekki að leggja dóm á hvort heldur er, hvort hæstv. ráðherra er að blekkja eða hvort hún skilur ekki málið, ég læt öðrum það eftir.

Ljóst er að hér er verið að festa í sessi enn á ný þá dómaframkvæmd sem ríkt hefur alveg frá Grágás og Jónsbók og var síðan sett í lögin 1923 og er það gert með fullu samkomulagi allra sem að málinu koma eða nokkurn veginn. Því spyr maður: Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra skuli vilja setja á stofn nefnd til að skilgreina m.a. meðferð vatnsréttinda loksins þegar í hennar tíð er búið að lenda þessu máli í sátt? Af hverju skyldi hæstv. ráðherra vilja skipa einhverja nefnd til að taka lögin upp í framtíðinni og koma aftur af stað deilum sem yrðu lagðar niður ef af samþykkt þessa frumvarp verður? Það er óskiljanlegt, gersamlega óskiljanlegt. En ég vil láta hæstv. ráðherra njóta þess vafa að hún hafi kannski ekki alveg gert sér grein fyrir hvers lags tímamót þetta eru og þessu verði bara ýtt undir teppið í framhaldinu. Það er von mín. Um leið og ég segi það vil ég enn og aftur óska formanni iðnaðarnefndar til hamingju með að hafa leitt til lykta mál sem hefur staðið í miklum deilum í Alþingi í hartnær 100 ár.