139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

fullnusta refsinga.

727. mál
[15:04]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. 4. gr. þessa frumvarps útvíkkar samfélagsþjónustu vegna fangelsisdóma úr sex mánuðum í níu og dómum allt að níu mánuðum má ljúka með 360 klukkustunda samfélagsþjónustu, eða níu vikum, þar sem allt að 1/5 hluti má vera viðtalsmeðferð eða viðurkennt námskeið. Ég gerði athugasemdir við útvíkkun á þessu ákvæði í meðferð nefndarinnar í ljósi hinna svokölluðu hvítflibbaglæpa úr hruninu sem sérstakur saksóknari hefur til meðferðar og munu líklega leiða til frekar vægra dóma vegna fordæmaleysis og með tilliti til mikils skorts á fangelsisplássum þar sem ákveðnar tegundir glæpa njóta forgangs við afplánun. Gera má ráð fyrir að refsingar vegna þeirra fjárglæfra sem leiddu til hrunsins verði afplánaðar að stórum hluta með samfélagsþjónustu og námskeiðum. Eru það skilaboðin sem þingið vill senda út í samfélagið? Ég held að það sé ekki góð leið á þessum tíma. Ég lagði til að gildistöku þessa ákvæðis yrði frestað (Forseti hringir.) en við því var ekki orðið. Þess vegna mun ég ekki greiða atkvæði með 4. gr. þessa frumvarps.