139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[16:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða. Ég var að kynna mér aðeins umsögn meiri hluta umhverfisnefndar og eins þeirra stofnana sem ég nefndi áðan og velti þá fyrir mér hvort menn væru bara svona ánægðir með að hafa getað tekið á þessu vandræðadeilumáli sem hefur hlaupið hér öfga á milli og tekið ótrúlega mikinn tíma af þinginu — ég held að ég muni það rétt að áður en til Icesave-málsins kom hafi þetta mál fengið lengsta umfjöllun í þinginu í klukkutímum talið — og að hafa fundið lausn sem þeir virðast sætta sig við.

Þá kem ég að umhverfisnefnd. Ég gat ekki betur séð á áliti meiri hluta umhverfisnefndar en að menn væru nokkuð sáttir við málið, að því gefnu að einhvern tíma í nálægri framtíð yrði farið í heildstæða skoðun og endurskoðun á vatnalögum og allri lagaumgjörðinni, þá væntanlega í kjölfarið á þeim lögum sem við samþykktum fyrr á þessu þingi um stjórn vatnamála.

Er friðurinn of dýru verði keyptur? Erum við að ganga of langt? Er löggjafinn að kasta til höndunum við lagasetningu sem er ekki nógu góð — allir vita það — til þess eins að fá sæmilegan frið um málið í staðinn fyrir að reyna að ná aðeins lengra og ljúka því þá þannig að við værum kannski með löggjöf sem stæðist jafn vel tímans tönn og upprunalegu vatnalögin frá 1923?