139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Okkur þingmanninn greinir greinilega mjög á í málinu vegna þess að ég veit að hv. þm. Þór Saari kom sjálfur að máli við allsherjarnefnd og lagði fram tillögur sínar og fékk fram ákveðnar breytingar. Það voru líka forsendur þess að málið náðist út úr allsherjarnefnd að hv. þm. Þráinn Bertelsson og hv. þm. Þór Saari fengu mál sín inn í frumvarpið til að hægt væri að afgreiða það út úr nefnd. (RM: Það kallast samráð.)

Formaður allsherjarnefndar kallar eftir tillögum Framsóknarflokksins. Ég spyr: Ekki hafa þær mörgu ræður sem ég hef flutt um lagaskrifstofu Alþingis farið fram hjá þingmanninum?

Mín skoðun er sú að við þurfum að styrkja Alþingi fyrst og síðast. Þessa stofnun þarf að styrkja faglega og fjárhagslega áður en farið er að styrkja framkvæmdarvaldið með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu. (Gripið fram í.) Þessi stjórn skar niður t.d. aðstoðarmenn landsbyggðarþingmanna. Ekki hefði þeim veitt af að hafa starfsmann í a.m.k. hálfu starfi til að hjálpa þeim í stórum kjördæmum. Tveimur árum seinna leggur þessi sama ríkisstjórn til aukningu upp á 13 aðstoðarmenn í ráðuneytin.

Framsóknarflokkurinn hefur svo sannarlega lagt fram tillögur til að bæta stjórnsýsluna, því hér byrja málin, hér er lagasetningin og allt veltur á lagasetningunni. Allt sem veltur á vandaðri lagasetningu — það væru ekki dómsmál ef lagasetningin væri í lagi. Það hefði ekki orðið hrun ef lagasetningin væri í lagi. Það þyrfti ekki umboðsmann Alþingis ef lagasetning væri í lagi.

Hér er byrjunin. Hér er staðurinn A. Og ég hef lagt fram frumvarp þess efnis að koma málum hér innan húss í lag við lítinn fögnuð ríkisstjórnarinnar, því að eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan var lagaskrifstofan stofnuð, hvar? Jú, í forsætisráðuneytinu, hjá þeim ráðherra sem lagt er til í frumvarpinu (Forseti hringir.) að taki við (Forseti hringir.) öllu saman. (Forseti hringir.)