139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

ummæli forseta Íslands.

[10:52]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Hvers konar afstaða er það hjá hæstv. forsætisráðherra að svara ekki einföldum spurningum þingmanna um þetta mál? Skiptir það hæstv. forsætisráðherra bara engu máli að forseti Íslands fari út um lönd og lýsi því yfir að ríkisstjórnin hafi brugðist skyldum sínum illilega? Þarf ekkert að tala um það í sölum þingsins? Er nóg að gefa yfirlýsingu til fjölmiðla um að hæstv. forsætisráðherra hyggist ræða þetta við forseta lýðveldisins? Hefur hæstv. forsætisráðherra farið fram á að kallaður sé saman ríkisráðsfundur? Hvernig ætlar hæstv. forsætisráðherra að bregðast við því þegar mál gengur eins fyrir sig og þarna? Það er ekki boðlegt fyrir hæstv. forsætisráðherra að koma hingað og lýsa því yfir að hún hafi ekkert um málið að segja við þingið. Það er bara ekki boðlegt.

Ég held að það sé fyrir löngu tímabært að það mál sem liggur fyrir þinginu, sem er rannsókn á Icesave-málinu, sé tekið til greina og samþykkt af þinginu. Ég tel að þetta sé mál sem þurfi að skoða ofan í kjölinn og að hæstv. forsætisráðherra svari þeim spurningum sem til hennar er beint.