139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hlý orð í minn garð. Ég spyr hv. þingmann á móti: Ætli það sé tilviljun að í þeim ályktunardrögum sem voru hér til umfjöllunar fyrir nokkrum mánuðum og samin voru og samþykkt í Brussel og lögð fram á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar íslenskra þingmanna og evrópskra, sé því sérstaklega fagnað að verið sé að ráðast í endurbætur á Stjórnarráðinu og breytingar á því og að þetta mál sé komið hér fram? Getur verið að frumvarpið tengist eitthvað aðildarumsókninni að Evrópusambandinu? Og getur verið að það sé m.a. ástæðan fyrir því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem er algjörlega andsnúinn aðild Íslands að Evrópusambandinu, hafi snúist svona gegn frumvarpinu? (Gripið fram í.)

Ég velti þessari spurningu bara upp. Ég hef ekki svör við henni enda er ég ekki sá sem leggur frumvarpið fram eða mælir fyrir því eða mælir því bót. En það er eðlilegt að þessi spurning komi fram og við ræðum hvort frumvarpið, eins og mörg önnur sem eru til umfjöllunar í þinginu, tengist aðildarumsókninni. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður getur eflaust upplýst mig um það hvort svo sé.

Hv. þingmaður spyr síðan og setur í samhengi við einræðistilburði hvort slíkir tilburðir séu uppi í Noregi, Svíþjóð og Danmörku (MÁ: Í konungsríkjunum …) — í konungsríkjunum. Ég skal ekki svara neinu um það en vil þó segja að ég held að það sé ekki endilega hægt að bera íslenska Stjórnarráðið saman við stjórnarráð þessara landa þar sem stjórnmálamenningin er allt önnur en hér, ríkisstjórnirnar oft á tíðum minnihlutastjórnir og vinnulag allt og (Forseti hringir.) framkvæmd með öðrum hætti en hér þekkist.