139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

viðvera ráðherra við umræður.

[15:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér kom fram saklaus ósk um að hæstv. forsætisráðherra yrði viðstödd umræðu um breytingar á Stjórnarráðinu, máli sem forsætisráðherra flutti hér sjálf. Stjórnarliðar hlaupa í ræðustól og finna því allt til foráttu að þessi saklausa beiðni sé borin fram og hleypa hér öllu upp í þinginu þegar eingöngu er verið að óska eftir því að ráðherrann sé viðstödd umræðuna. Ég skil ekki af hverju stjórnarliðar bregðast við með þessum hætti. Er það virkilega þannig að þeir treysta ekki sínum ágæta forsætisráðherra til að vera við umræðuna, til að koma inn í umræðuna og vera til svara? Hver er hræðslan við þetta? Ég átta mig ekki á þessu.

Ég vil ítreka, herra forseti, að farið verði fram á það við hæstv. forsætisráðherra í mikilli vinsemd að forsætisráðherra verði viðstödd umræðuna.