139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Sá er hér stendur er að hefja ræðu um frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands, ekki að tala um fundarstjórn forseta þannig að það liggi ljóst fyrir. Ég vona sannarlega að skilaboðin muni berast hæstv. forsætisráðherra.

Við ræðum frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands. Þetta er ekki mjög langt frumvarp í greinum og blaðsíðum talið en með því eru — (Gripið fram í: Skemmtilegt.) já, skemmtilegt aflestrar engu að síður, en með því eru fylgiskjöl og mikil skýrsla. Þegar maður les það aftur og aftur og rifjar upp lesturinn frá því í vor þegar við byrjuðum að fjalla um þetta mál verður sá er hér stendur í það minnsta æ sannfærðari um að á þessu máli eru miklir gallar sem þarf að sníða af. Ég held þó að inn á milli séu greinar og breytingartillögur sem eru verulega til bóta. Það sem er eftirtektarverðast við samningu þessa frumvarps er að það er verið að blanda saman annars vegar skýrslu sem þingmannanefndin skilaði af sér og hins vegar skýrslu sérvalins hóps forsætisráðherra. Hann skrifaði skýrslu sem er hér fylgigagn með þessu plaggi og heitir Samhent stjórnsýsla. Margt gott er sett þar fram og til bóta, eins og ég segi, en annað er ekki jafngott.

Auðvitað er búið að segja ýmislegt í umræðunni um þetta mál og halda ýmsu fram. Sitt sýnist hverjum, það er einfaldlega svoleiðis. Það má líka taka undir suma gagnrýni á það hversu mikil áhersla er lögð á að forsætisráðherra fái það mikla vald sem ráðherranum er falið í frumvarpinu á sama tíma og öllum sem það vilja sjá er orðið ljóst að það er mikill vilji, a.m.k. meðal sumra stjórnarliða, að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra finni sér eitthvað annað til dundurs en að vera ráðherra. Þetta mál er rekið samhliða þeirri baráttu ef ég má orða það þannig. Sé litið fram hjá því eru áfram sömu gallar á frumvarpinu þó að framtíð hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé tekin út fyrir sviga.

Ég held að sé til dæmis galli að kveða ekki skýrt á um heiti á ráðuneytum. Ég held að það sé ekki til þess að skýra og einfalda stjórnsýsluna að skilja það eftir opið. Mér finnst líka, og það er grundvallarþáttur sem ég mun koma betur að í ræðu minni, rangt að klippa á, kannski of sterkt til orða tekið, eða taka úr sambandi það hlutverk sem Alþingi hefur haft um skipan ráðuneytanna. Þá er ég að vitna til 2. gr. frumvarpsins.

Ég veit líka að menn hafa ýmsar skoðanir á því að það þurfi að vera ákveðinn sveigjanleiki á skipan ráðuneyta á hverjum tíma. Þau geta verið átta eða tíu eða tólf, það þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki í því að mínu viti, og það getur hreinlega farið eftir áherslum þeirrar ríkisstjórnar sem ríkir á hverjum tíma. Mér finnst að sama skapi sjálfsagt að Alþingi, löggjafinn, hafi um það að segja hvernig þeir hlutir líta út. Sé allt með felldu innan ríkisstjórnar sem skiptir með sér verkum ætti að vera auðvelt að sækja þá heimild til Alþingis.

Hér hefur komið fram við umræður, og mun örugglega koma fram hjá fleirum, að þeirri breytingu að færa þessar valdheimildir til forsætisráðherra sé erfitt að finna stað í tillögum þingmannanefndarinnar, hana sé frekar að finna í skýrslu starfshópsins. Það er hins vegar verið að bregðast við tillögum um skýrari stjórnsýslu í öðrum greinum í þessu frumvarpi. Fer ég á eftir yfir hvern kafla fyrir sig og það sem ég hef rekist á í þeim sem vert er að gera athugasemdir við, best að orða það þannig.

Í nefndaráliti meiri hlutans eru raktar helstu breytingar eins og venja er. Þar er talað um að meðal breytinga sé að ekki verður tæmandi upptalning á heitum ráðuneyta í lögum heldur einungis heildarfjöldi þeirra ákvarðaður og svo hafa verið settar fram breytingartillögur við það. Ég verð að segja áður en lengra er haldið, herra forseti, að margar af breytingartillögunum við frumvarpið eru mjög til bóta. Ég hefði því talið að til að ná þeim breytingartillögum fram ættu menn að setjast niður og velta því upp hvort yfirleitt sé vert að halda 2. gr. í frumvarpinu. Ég hygg að ef sú grein yrði tekin út fyrir sviga og menn mundu ræða aðra hluti væri hægt að ná býsna góðri sátt um margar af tillögunum í frumvarpinu.

Herra forseti. Ég tek fram að ég er ekki að segja að frumvarpið í heild sé ónýtt plagg. Og svo það fari ekki á milli mála er margt gott í skýrslunni Samhent stjórnsýsla. Þar er ýmsum ágætum hlutum velt upp og ég vil ekki að það standi upp úr eftir þessa ræðu að ég hafi álitið að það væri lélegt eða ónýtt plagg. Það er frekar þessi mikla breyting sem mér finnst vera í frumvarpinu um að færa valdið meira til ráðherrans. Ég hef verið þeirrar skoðunar frá því að ég kom á þing, og í rauninni áður líka, að það þurfi að gera miklu meira í að efla löggjafann. Þá á ég við bæði faglega og um leið sjálfstæði þingsins. Ef breytingar um til dæmis aðstoðarmenn í ráðuneytum ná fram að ganga bendir margt til þess að kostnaður við það geti verið á bilinu 100–140 millj. kr. á ári ef farin er ýtrasta leið. Það er hægt að gera ýmislegt fyrir þá fjármuni. Ætli það sé ekki helmingurinn af því sem Kvikmyndaskólinn hefur verið að tala um? Það má deila um hvort það sé sanngjarnt að stilla málunum svona upp en engu að síður er ágætt að setja þessa fjármuni í samhengi. Ég hefði viljað að við tækjum þessa fjármuni og settum þá í að styrkja Alþingi, styrkja starfsaðstöðu þingmanna og aðstoð við þá, hvort sem það er löggjafarhliðin eða efnahagshliðin, sem við alþingismenn köllum svo oft eftir. Eins minni ég á að hér var sleginn af, árið 2009 minnir mig, réttur þingmanna til aðstoðarmanna. Það var ákveðið að spara og ráða ekki aðstoðarmenn og því skýtur skökku við að hér sé verið að sækja heimild til að fjölga aðstoðarmönnum innan ráðuneytanna, þ.e. hjá framkvæmdavaldinu. Ég er ekki þar með að segja að það geti ekki verið réttlætanlegt að fjölga aðstoðarmönnum en að gera það á þessum tímapunkti held ég að sé einfaldlega rangt og mun því illa geta samþykkt þá tillögu nema okkur takist að breyta henni með einhverjum hætti, fresta eða eitthvað slíkt. Það er ekki í takt við þá niðurstöðu eða það sem kemur fram í þeim skýrslum sem hafa verið skrifaðar eftir hrun að auka völd framkvæmdarvaldsins á kostnað löggjafans.

Ég hef nefnt tvö dæmi úr þessu frumvarpi, annars vegar það að Alþingi þurfi ekki að samþykkja fjölda ráðuneytanna og heiti þeirra og eins hitt að það eigi að vera hægt að fjölga aðstoðarmönnum í ráðuneytunum meðan ekki er hægt að sinna alþingismönnum sómasamlega.

Þá vil ég nefna annað sem ég er algjörlega á móti og það er ef fjárlaganefnd ætlar að breyta hjá sér vinnubrögðum varðandi safnliði. Mér finnst gríðarleg afturför að færa úthlutun þessara styrkja, þessara fjármuna, frá Alþingi og til embættismanna eða sjóða sem eru kallaðir samkeppnissjóðir. Við vitum að mörg af þeim verkefnum sem hafa hlotið náð fyrir augum fjárlaganefndar eru ekki beinlínis sniðin inn í slíka sjóði en skipta miklu máli fyrir þá staði og þau verkefni sem um er að ræða. Mér finnst við vera á þeirri leið að vera að veikja löggjafann sem er ekki gott þegar við þurfum svo á því að halda að styrkja hann.

Ég spái því að þegar fjárlagafrumvarpið kemur nú fram verði enn og aftur farið í að gera tillögur um samdrátt í fjárlögum Alþingis. Ég vona sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér, ég vona að stjórnarþingmenn geti komið hér upp þegar fjárlagafrumvarpið kemur fram og sagt að ég hafði rangt fyrir mér. Það má ekki höggva nær Alþingi en nú er gert.

Þegar ég nefni þessi atriði velti ég fyrir mér hvort það sé almennt viðhorf í dag í stjórnsýslunni hjá framkvæmdarvaldinu að reyna að koma hlutum þannig fyrir að það sé verið að þétta tökin og völdin í stjórnsýslunni meðan löggjafinn fær ekki að styrkjast og er jafnvel látinn veikjast. Ef það er rétt hjá mér að það sé þemað, ef ég má orða það þannig, erum við á kolrangri leið. Það má vissulega gagnrýna Alþingi og löggjafann fyrir ýmislegt í kringum umhverfið í bankahruninu og hvernig hlutirnir voru settir upp og allt slíkt, en það má ekki sleppa því að nefna það að megingagnrýnin er kannski á stjórnsýsluna. Það þarf að halda því til haga.

Það eru þrjú nefndarálit um þetta frumvarp, nefndarálit meiri hlutans, nefndarálit 1. minni hluta sem á eru þingmenn Sjálfstæðisflokks og síðan nefndarálit þingmanns Framsóknarflokks. Það er mismunandi áhersla í öllum þessum nefndarálitum sem lýsir því kannski í rauninni hversu djúp gjáin er á milli manna. Hins vegar þarf ekki að lesa lengi til að sjá að sú gjá snýst fyrst og fremst um 2. gr.

Það kom fram í ræðum fyrir helgina þar sem vitnað er í helstu breytingarnar sem eru í farvatninu í þessum lögum og er útskýrt meðal annars í ræðunni hér með nefndaráliti og frumvarpi hvernig meiri hlutinn sér þetta allt saman. Það er vitnað í skýrslurnar til skiptis. Mér finnst eins og ekki sé gerður alveg nógu mikill greinarmunur á því hvenær er horft til rannsóknarskýrslunnar eða þingmannaskýrslunnar og hvenær til skýrslu starfshópsins. Nóg um það.

Í I. kafla er fjallað um Stjórnarráðið. 1. gr. frumvarpsins er hefðbundin grein ef má orða það þannig og kannski ekki mikið um hana að segja. 2. gr. er sú sem mesta deilan snýst um. Þar er vísað til þess að hætta að telja upp í lögum heiti einstakra ráðuneyta og flytja þetta vald. Það hefur komið fram að svona sé þetta víða. Noregur hefur verið nefndur sem dæmi. Það kann vel að vera að þetta sé einhvers staðar en það er ekki endilega þar með sagt að það sé gott. Það er ekki allt gott sem aðrir gera. Við sjáum það mjög vel í regluverki kringum efnahagshrunið og bankahrunið að við hefðum betur haldið þeim stífu reglum sem við vorum með hér um tíma. Það hefði kannski komið í veg fyrir þetta hrun ef við hefðum ekki farið svo nákvæmlega eftir strípuðum EES-reglum. Þá er ég að vísa til Icesave-málsins.

Í II. kafla er fjallað um skipun ráðherra og verkaskiptingu þeirra á milli. Í 4. gr. er fjallað um stjórnarmálefni og hvernig þeim er fyrir komið. Í breytingartillögu frá meiri hluta allsherjarnefndar er lagt til að tekin sé út setning um að hvert ráðuneyti skuli lagt óskipt til eins og sama ráðherra. Það er hins vegar hægt að velta fyrir sér af hverju þetta er gert, hvað vaki fyrir meiri hlutanum að breyta þessu. Það má líka velta því upp eins og kemur fram í einu nefndarálitinu hvort hægt sé að skipta upp ráðuneyti milli ráðherra og það sé þá, ef ég skil þetta rétt, forsætisráðherra sem getur ákveðið það. Praxísinn er kannski annar, en eins og þetta stendur skrifað sýnist mér liggja svona í þessu.

III. kafli þessa frumvarps er um ríkisstjórn og samhæfingu starfa á milli ráðherra. Þar eru lagðar til breytingar frá meiri hlutanum. Í 6. gr. eru breytingartillögur sem ekki hafa endilega mikla þýðingu en það eru matskennd atriði sem verður að fara eftir. Í 7. gr. er talað um að forsætisráðherra geti falið starfsmanni forsætisráðuneytis að gegna stöðu ritara ríkisstjórnar, talað um fundargerðir og þess háttar. Það er mjög til bóta að skýra hvernig á þessum málum er haldið, hvernig á að rita fundargerðir, hvað á að koma fram o.s.frv. Að mínu viti verðum við samt að feta einhvern milliveg þarna þannig að hvorki fundargerðir né fundir ríkisstjórnar verði einhvers konar sýndarfundir og málin afgreidd einhvers staðar annars staðar. Því held ég að breytingartillagan við 7. gr. um hljóðritanir — best að orða það bara eins og ég hugsa það — ég hef efasemdir um að hún sé til bóta. Það er hreinlega hætta á að umræðan muni breytast á ríkisstjórnarfundum og jafnvel færast eitthvað annað í staðinn fyrir að hún eigi sér stað á fundunum og sé færð til bókar í samræmi við athugasemdir og breytingartillögur sem eru að mörgu leyti alveg ágætar.

Litlar breytingar eru lagðar til á öðrum greinum, þó við 9. gr. og þar kemur meðal annars fram ný málsgrein, með leyfi forseta:

„Þótt ráðherra hafi tekið mál upp í ráðherranefnd leysir það hann ekki undan skyldu til að bera mál upp í ríkisstjórn, sbr. 6. gr.“

Ég geri ráð fyrir að þetta sé hugsað til þess að ráðherra geti ekki sett málin í þessar svokölluðu ráðherranefndir sem talað er hér um og látið þau gerjast þar, vera á sveimi og í vinnu án þess að tilkynnt sé í ríkisstjórninni hvað þar fer fram. Þetta er ágætt ef skilningur minn er réttur. Mér finnst hins vegar ekki alveg nógu skýrt hvað átt er við.

Við erum komin í IV. kafla um stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra. Ég held að það sé mjög gott að skýra þær þannig að það liggi ljóst fyrir hvaða heimildir ráðherra hefur og hvernig hann á þá að fara með þær. Það má hins vegar velta upp hvað felst í orðum eins og „óbindandi álit“, hvað nákvæmlega átt er við með því. Það er væntanlega hægt að skýra þetta þannig að það liggi ljóst fyrir.

Hér eru aðrir kaflar um innra skipulag ráðuneyta og starfsmannahald. Í 22. gr. er talað um aðstoðarmennina sem ég nefndi áðan. Eftir að hafa starfað, reyndar fyrir nokkru síðan, í ráðuneyti sjálfur sem aðstoðarmaður ráðherra hef ég að mörgu leyti skilning á því að ráðherrar þurfi að hafa styrkan hóp aðstoðarmanna í kringum sig. Ég verð líka að viðurkenna að ég hef verið svolítið hrifinn af hugmynd sem Álfheiður Ingadóttir nefndi hér, að ráðherra kemur inn í ráðuneyti með ákveðinn massa af fólki sem fer svo með honum aftur. Mér finnst að við ættum hreinlega að skoða það. Það hlýtur að vera verkefni ráðherra í hvaða ráðuneyti sem hann er að fylgja eftir þeirri stefnu sem hann stendur fyrir og er kosinn út á til að fylgja eftir þeim samþykktum og þeim samningi sem ríkisstjórn hvers tíma stendur að. (Gripið fram í: Fylgja ákvörðunum Alþingis, það er það sem …) Fylgja ákvörðunum Alþingis, ég átti eftir að telja það upp, sem er að sjálfsögðu stóra málið, en að því gefnu að ráðherrarnir, ráðuneytin og ríkisstjórnin hafi meiri hluta á bak við sig í þeim málum sem unnið er að. Aðstoðarmenn geta þar af leiðandi verið, og eru, mjög mikilvægir og hægt að réttlæta það vissulega að þeir þurfi að vera fleiri.

Ég ítreka því og kem aftur inn á það sem ég sagði áðan, mér finnst skjóta skökku við ef mikil áhersla er lögð á þetta í ljósi þess samdráttar sem til dæmis Alþingi hefur orðið fyrir og þurft að skera niður. Ef mig misminnir ekki hefur Alþingi þurft að bera talsvert meiri hlutfallslegan niðurskurð en ráðuneytin og framkvæmdarvaldið. Ég hvet þingmenn til að hugsa vandlega hvort það sé rétt að auka á kostnað framkvæmdarvaldsins um 100–130 milljónir eða hvað það kann nú að verða meðan við getum ekki náð þokkalega endum saman fyrir Alþingi eða þær stofnanir og verkefni sem heyra undir okkur.

Síðan er hér kafli um siðferðileg viðmið í starfsemi Stjórnarráðs Íslands. Það er mjög gott að setja siðareglur fyrir starfsmenn Stjórnarráðsins og fyrir ráðherra og ráðuneyti. Ég held að það sé alveg hægt að taka undir það með þeim sem hafa fagnað þessum kafla að það sé mikilvægt að gera þetta þannig að menn hafi að minnsta kosti einhver viðmið til að vinna eftir.

Þá ætla ég að leyfa mér að nefna að við höfum rætt nokkuð í tengslum við sveitarstjórnarlög fjármálareglur sveitarfélaga sem sveitarfélögin hafa haft ákveðið frumkvæði að því að setja. Ég ætla að tengja þetta siðareglunum og spyr hvort ekki sé rétt að framkvæmdarvaldið, og þá löggjafinn um leið, setjist niður og velti fyrir sér hvort við þurfum ekki að setja skýrari fjármálareglur fyrir ríkissjóð, fyrir ríkið. Það er mjög sérstakt að verða vitni að því ár eftir ár að fjárlög eru samþykkt með einhvers konar niðurstöðutölu og síðan eru samþykkt fjáraukalög. Í fjárlögum hvers tíma eru heimildarákvæði, óskilgreind jafnvel, sem geta numið milljörðum eða tugum milljarða. Mér er minnisstætt þegar hæstv. fjármálaráðherra fékk heimild til að kaupa hlut í orkufyrirtækjum. Ég velti því fyrir mér hvort það skipti engu máli hvort fjármálaráðherrann kaupir hlut fyrir milljarð eða 50 milljarða. Mætum við þessu bara í fjáraukalögum þegar að því kemur? Þetta er hluti af þeim vinnubrögðum og vinnulagi sem við þurfum að bæta hjá okkur.

Hvert verður framhaldið á breytingum á Stjórnarráði Íslands nái þetta frumvarp fram að ganga? Það kann vel að vera, herra forseti, að allsherjarnefnd hafi gert það sem hún taldi sig geta til að hafa góða og eðlilega umfjöllun um málið í nefndinni. Það kann vel að vera að meiri hluta nefndarinnar hafi fundist nóg komið, að allt væri komið fram sem þyrfti að koma fram. Ég heyri á máli þeirra stjórnarandstöðuþingmanna sem sátu í nefndinni að þeir eru greinilega ekki alveg sama sinnis. Samt verðum við að velta fyrir okkur að það er vont að vera með mál eins og þetta sem getur tekið miklum breytingum við það eingöngu að skipta um ríkisstjórn, ef nýr meiri hluti kemur inn á þing. Ég held að sé ekki skynsamlegt að hræra hugsanlega í máli sem þessu á fjögurra ára fresti. Ég held að það væri nær að setja málið í farveg þar sem næðist einhver sátt.

Ég hef líka skilið þetta þannig að ósættir í nefndinni snúist fyrst og fremst um 2. gr. Ég fæ ekki séð að þessi grein sé einhver lykilgrein að því sem á eftir kemur. Það er hægt að nýta allar hinar ágætu greinarnar til að bæta umhverfi Stjórnarráðsins án þess að 2. gr. nái fram að ganga og þá fer ég að hugsa hvort ekki megi ýta henni til hliðar í þeirri von að ná frumvörpunum í gegnum þingið og að um þau ríki sæmileg sátt.

Ef þetta er hins vegar það sem öllu skiptir í þessu frumvarpi ætla ég að leyfa mér að segja að ég er mjög ósammála því mati. Ég tel aðra hluti skipta máli.

Hér hefur líka verið sagt úr ræðustól að stunduð séu hrossakaup og nefndur Árósasamningurinn. Þeir sömu og tala um hrossakaup í því sambandi ættu að velta fyrir sér hvort það hafi farið fram einhver hrossakaup varðandi það að leita stuðnings við þetta mál gegn því að einhverjar breytingartillögur næðu fram að ganga. Hvort sem menn kalla það hrossakaup eða samninga er ekkert óeðlilegt við að samið sé um lok mála eða hvernig þau muni líta út þegar ólík sjónarmið mætast. Út á það gengur meðal annars pólitíkin, að kryfja málin til mergjar og komast að niðurstöðu. Það er þing eftir þetta þing þannig að mál sem ekki ná fram að ganga eru einfaldlega lögð fram aftur, hugsanlega breytt, til að ná um þau meiri sátt eða óbreytt ef menn vilja endilega keyra þau í gegn eins og þau líta út.

Löggjafinn á að standa og stendur að mínu viti nær almenningi, nær lýðræðinu, því að þangað sækjum við sem hér sitjum umboð okkar sem og sjálfsögðu ráðherrarnir. Framkvæmdarvaldið starfar í umboði löggjafans. Við setjum því ákveðnar leikreglur. Ég held að Alþingi eigi ekki að gefa eftir þær leikreglur í þessu tilfelli. Ég held að það sé hvorki lýðræðinu til góðs né umræðunni. Ég held að það sé þvert á það sem hefur almennt verið skoðun og í umræðu eftir hrunið að draga úr vægi eða völdum einstakra ráðamanna.

Í skýrslunni sem fylgir með, þeirri sem var unnin af starfshópnum og ég nefndi áðan, er margt athyglisvert. Á bls. 56 í frumvarpinu er samantekt skýrsluhöfunda um skýrsluna. Í henni stendur meðal annars, með leyfi forseta:

„Að mati nefndarinnar er þörf á að tryggja betur samheldni innan ríkisstjórna, m.a. í því skyni að auðvelda þeim að taka erfiðar ákvarðanir. Rannsókn sem nefndin studdist við sýnir að sjálfstæði ráðherra er óvíða meira en hér á landi og hlutverk ríkisstjórnar og forsætisráðherra að sama skapi veigaminna.“

Er sem sagt markmiðið að draga úr sjálfstæði ráðherranna og auka hlutverk forsætisráðherra og ríkisstjórnar? Ég held að það sé hægt að gera með öðrum hætti. Mér sýnist að við séum að ganga heldur langt til að mæta þessari skoðun nefndarinnar ef það er markmiðið. Í rauninni má velta því upp hvort við séum að fara úr því að vera með ríkisstjórn sem er fjölskipað stjórnvald yfir í eitthvað annað. Þetta fannst mér mjög athyglisvert og ég hef verið mjög hugsi yfir þessu, hvort þetta séu rökin sem hafi verið notuð fyrir því að setja þetta fram. Ég kaupi þau ekki.

Svo má leggjast í að ræða hvort það sé skynsamlegt að gera breytingar á ráðuneytum í þá veru að heiti þeirra eða verkefni séu óskýr. Ég hef enn efasemdir um að það sé sniðugt að vera með jafnstór ráðuneyti og við erum með í dag. Ég nefni velferðarráðuneytið, ég er enn ekki sannfærður um að það hafi verið rétt að gera eitt svo stórt ráðuneyti. Þar er um að ræða mikla og erfiða málaflokka. Ég er sannfærður um að hæstv. velferðarráðherra veiti ekkert af því að hafa fleiri aðstoðarmenn í slíku ráðuneyti ef það er það sem verið er að reyna að hlaupa hér undir bagga með.

Í nefndarálitum er gagnrýndur skortur á samráði um málið. Það kann að vera rétt. Það kann líka að vera að ástæða hefði verið til þess að klára málið mjög hratt í nefndinni til að koma því í umræðu og mikil áhersla lögð á þetta mál. Mér finnst hins vegar, herra forseti, málið ekki vera það sem mestu skiptir á þessum lista sem við erum með hér, lista 32 þingmála og fleiri væntanleg, að halda áfram að kýta um grein sem er alveg ljóst að ber svo mikið á milli manna að þeir þurfa að setjast niður og ræða hvernig hægt er að koma öllum hinum góðu greinunum í gegn þó að eflaust þurfi að breyta þeim eitthvað. Þar er hins vegar margt gott að finna eins og ég hef áður sagt.

Í einu nefndarálitanna er vitnað í grein er hæstv. innanríkisráðherra skrifaði í DV í maí 2010, mjög athyglisverða grein. Ég ætla að lesa upp þessa tilvitnun í greinina því að maður fer að velta fyrir sér hvort samstaðan um málið innan stjórnarflokkanna sé breytt, hvort það sé yfirleitt rétt að vera með málið í þingsal, hvort ekki þurfi að gera það betur úr garði. Vitnað er sem sagt í grein hæstv. núverandi innanríkisráðherra sem þá var óbreyttur alþingismaður, með leyfi forseta:

„Sannast sagna hélt ég að flestir sæju að skortur á gagnsæi og lýðræði ættu drjúgan þátt í efnahagshruninu. Hjarðhegðun hefur líka verið nefnd og tvíburasystir hennar, forræðishyggjan. Hvarvetna þar sem fólk kemur saman til að ræða nýútkomna rannsóknarskýrslu ber þetta hæst. Ekki þó hjá öllum. Ekki hjá starfshópi forsætisráðuneytisins sem í lok síðustu viku skilaði tillögum til ríkisstjórnarinnar um breytta og bætta stjórnsýslu með hliðsjón af efnahagshruninu og lærdómum sem af því hafa verið dregnir. […]

En ekki er mikið að finna um leiðir til að komast hjá hjarðhegðun og forræðishyggju eða hvernig megi auka gagnsæi og lýðræði hjá hinu opinbera. Þvert á móti er talað um að þörf sé á að „skerpa á forustuhlutverki forsætisráðherra í ríkisstjórn“; aðrir ráðherrar eigi að sitja „í skjóli“ hans og megi ekki orka tvímælis hverjum beri „að knýja á um ábyrgð þeirra eða afsögn þegar ástæða þykir til“. Nefndin virðist ekki vera í vafa um að allt hnígi þarna í sömu átt, yfirvald beri að styrkja.“

Þetta skrifaði núverandi hæstv. innanríkisráðherra í DV í maí 2010.

Ég efast ekki um að hæstv. innanríkisráðherra sé sama sinnis, enda var hann með fyrirvara á frumvarpinu eins og kom fram þegar það var afgreitt út úr ríkisstjórn. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var á móti því að afgreiða málið út.

Ef við gefum okkur að hæstv. innanríkisráðherra hafi sé þarna að lýsa í stuttu máli þeim tillögum sem hér er um að ræða, þá vísast sérstaklega til 2. gr., er þetta vitanlega mikill áfellisdómur yfir vinnunni eða hugmyndunum í frumvarpinu sé það þannig að þetta frumvarp endurspegli þann þankagang sem þarna er gagnrýndur.

Herra forseti. Ég held að mörgum spurningum hafi enn ekki verið velt upp um þetta mál.

Hér hefur komið fram gagnrýni, a.m.k. ábendingar, um nokkrar greinar. Sumt er veigaminna en annað. Eina greinin í frumvarpinu sem má segja að margir sem hér hafa talað vilji út er 2. gr. Ég legg því á þessum lokamínútum, herra forseti, eindregið til að það verði farið að ræða málin, hvort sem það þýðir hrossakaup eða viðræður eða vangaveltur eða óformlegt eða hvað það er, og að velti fyrir sér hvort hægt sé að ljúka þessu máli með einhvers konar breytingum. Það er vont að góðu tillögurnar í þessu frumvarpi nái ekki fram að ganga. Ég segi það alveg fullum fetum. Það er vont ef svo fer. Hins vegar eru í mörgum frumvörpum kannski tvö atriði hreinlega til þess fallin að drepa málið, ég orða það bara þannig. Við sáum best hér um daginn þegar við vorum að ræða Árósasamninginn að ekki þurfti að taka út nema lítinn hluta, eina setningu eða hvað það var, eina grein, til að það mál fengist samþykkt. Um það urðu allir sammála, menn áttuðu sig á að þarna bar of mikið á milli, prinsippmál sem var reynt að breyta og það varð bara á milli. Þess vegna held ég, herra forseti, að það væri vel þess virði í það minnsta að menn settust niður og veltu fyrir sér hvort hægt væri að ljúka málinu með öðrum hætti. Ég hvet formann allsherjarnefndar sem ég veit að er viðræðugóður maður til að velta þessu alvarlega fyrir sér.

Það er eðlilegt að um þetta mál sé mikið rætt. Eins og ég sagði er þetta prinsippmál. Það er vont ef ekki næst að klára það, það má ekki verða fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar á hverjum tíma að fara í breytingar á þessu frumvarpi og taka mikinn tíma í þinginu í umræðu um það og þess háttar. Það kann vel að vera að hægt sé að teikna upp 2. gr. með þeim hætti að allir geti sætt sig við hana. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki fundið þá leið sjálfur en það kann vel að vera að einhverjir sem eru betur að sér í málinu en ég geti komist til botns í því. Þetta er hins vegar ekki í þeim anda sem maður hefði viljað sjá eftir allt sem á undan er gengið.

Herra forseti. Vonandi gat ég farið yfir áhyggjur mínar í þessu máli á þeim mínútum sem ég hef haft hér. Ég mun að sjálfsögðu taka aftur til máls ef ég tel að eitthvað hafi orðið út undan eða ef ég verð einhvers frekar vísari af því að hlusta á þær ræður sem eftir eru. Ég þakka formanni nefndarinnar fyrir að sitja hér við þá umræðu sem er búin að vera og verður vonandi áfram. Ég held að það sé mikilvægt að þessi sjónarmið sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa komist til stjórnarþingmanna. Það er besta leiðin til að hægt sé að koma fram með lausnir til að ljúka málinu og höggva á hnútinn. Það er til mikils að vinna. Við eigum eftir að ræða hér mörg önnur mál, auðvitað mismikilvæg en mörg finnst mér mikilvægari en þetta.