139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo að ég haldi aðeins áfram að ræða hugmyndina sem hv. þingmaður nefndi vildi ég kannski lýsa henni þannig að hún fæli í sér einhvers konar léttútgáfu af því fyrirkomulagi sem við búum við í dag, (EyH: Stjórnarráð „light“.) einhvers konar einfaldari og væntanlega fljótvirkari aðferð til að fjalla um mál í þinginu.

Ég sagði í lok fyrra andsvars míns að ég teldi núverandi fyrirkomulag ekki gallað að þessu leyti, þ.e. að þegar nýtt ráðuneyti er stofnað eða ráðuneyti lagt af þurfi lagabreytingu til. Ég tel að lagabreytingaferlið eins og það gengur fyrir sig hér á þingi með þremur umræðum og nefndarstarfi þess á milli o.s.frv. tryggi að fjölbreytt sjónarmið komist að. Ég á bágt með að sjá á eftir því fyrirkomulagi en ítreka þó að tillaga hv. þingmanns er mun betri en sú sem er að finna í frumvarpinu.