139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Við greiddum atkvæði í dag um hvort halda ætti kvöldfund á Alþingi um þau mál sem tilgreind eru á dagskrá. Sú atkvæðagreiðsla fór þannig að stjórnarliðar sögðu já við kvöldfundi væntanlega vegna þess að þeir vildu að um þau mál sem á dagskrá eru færi fram umræða. (Gripið fram í: Akkúrat.) Þeir hefðu vart samþykkt kvöldfund, eins og það heitir, ef ósk þeirra hefði verið sú að málin yrðu ekki rædd. Það bregður hins vegar svo við að hér koma menn úr stjórnarliðinu og furða sig á því og kalla það málþóf þegar stjórnarandstæðingar sem vilja tala um málið skuli gera það. Mér er spurn: Til hvers samþykktu stjórnarliðar fund fram á kvöld ef það var ekki til þess að menn ræddu þau mál sem eru á dagskrá?