139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef þessi rök væru góð og gild mundu þau alveg gilda eftir að þetta frumvarp yrði orðið að lögum þannig að ég blæs auðvitað á svona rök sem eru engin rök. Og hvað með stjórnarskrána, hv. þingmaður? Það væri gott að fá svar við því.

Hér er mikið talað um miðstýringu, að ég sé að beita mér fyrir miðstýringu og einræði. Hver er sannleikurinn í þessu máli? Það er verið að samhæfa störf milli ráðherra og koma á góðri og skilvirkri stjórnsýslu sem er ekki miðstýring. Af hverju er verið að því? Það er vegna þess að það er verið að fara eftir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ráðherrar bera eftir þessa breytingu enn ábyrgð á málaflokki sínum, á því er engin breyting. Ríkisstjórnin situr áfram í skjóli meiri hluta Alþingis, á því er engin breyting. Þannig að það er bull og vitleysa að hér sé verið að koma á miðstýringu eins og margt annað sem hefur komið fram hér í þessum ræðustól sem ekki stenst nokkra skoðun.